Lögverndun leiðsögumanna ekki tímabær

Félag leiðsögumanna vill að starfið verið lögverndað.
Félag leiðsögumanna vill að starfið verið lögverndað. Rax / Ragnar Axelsson

Ferðamálaráðherra segist ekki telja rétt á þessu stigi að lögvernda eigi starf leiðsögumanna. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Vísar ráðherra til þess að áður hafi verið lagt fram frumvarp um löggildingu starfsheitisins, en í umsögnum hafi komið fram að slíkt væri enn ótímabært.

Félag leiðsögumanna hefur hins vegar talið löggildingu eða lögverndun á starfi eða starfsheiti félagsmanna sinna mikilvæga og litið á hana sem mikilvægt náttúruverndar-, gæða- og neytendamál.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að breið sátt þyrfti að nást um slíka framkvæmd meðal atvinnulífs, leiðsögumanna og stjórnvalda, áður en til samþykktar kæmi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá segir hún vert að hafa í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn. Hún segir álitaefni hvort slíkur ávinningur lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna vegi upp þann samfélagslega kostnað sem af slíkri löggjöf hlytist. Þannig ætti löggjöf um lögverndun starfsheita að miðast við að skerða ekki atvinnufrelsi nema sýnt hafi verið fram á ávinning þeirrar lögverndunar. 

Í svarinu segir að skoða megi hvort hægt sé að ná markmiðum lögverndunar starfsréttinda með öðrum hætti, eins og á grunni gæðakerfisins Vakans.

„Þetta væri t.d. hægt að gera með samningum við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að þau noti faglærða leiðsögumenn og kynningum og auglýsingum þar sem hvatt er til að notaðir séu faglærðir leiðsögumenn. Þá mætti einnig hugsa sér að þeir sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í tiltekinn tíma geti aflað sér réttinda enda sýni þeir með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi. Þannig kemur til greina að skoða leiðir til að ná markmiðum löggildingar með öðrum leiðum. Þó ber alltaf að hafa þekkingu að meginstefi í störfum þeirra sem taka að sér leiðsögn til að tryggja sem jákvæðasta og besta upplifun ferðamanna hverju sinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert