Skipa í málefnahópa með slembivali

Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokksins.
Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sósíalistaflokkur Íslands mun notast við slembival til að móta stefnu flokksins. Ákvað bráðabirgðastjórn flokksins fyrirkomulag fyrstu fjögurra málefnahópa hans og munu þeir fjalla um heilbrigðismál, húsnæðismál, málefni samfélagssjóða og lýðræðisvæðingu samfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum, en þar segir að málefnin endurspegli stutta en hnitmiðaða stefnu hans.

Þrjátíu slembivöldum félögum í hverjum hópi verður falið að móta stefnu flokksins í þessum málefnum og leggja tillögur sínar fyrir Sósíalistaþing í haust. Þetta fyrirkomulag er valið í þeirri trú að ef hópur fólks sem endurspeglar almenning hefur aðgengi að bestu upplýsingum muni hann komast að skynsamlegri og góðri niðurstöðu með lýðræðislegu samtali.

Segir í tilkynningunni að slembival eigi að tryggja að fulltrúarnir séu raunverulegt þversnið samfélagsins og þannig fáist sem flest sjónarmið. „Um leið er það besta vörnin gegn klíkumyndun, stéttaskiptingu og sérhagsmunagæslu í stefnumótun,“ segir í tilkynningunni.

Sósíalistaþingið í haust mun taka niðurstöðu hópanna til afgreiðslu og ákvarða framhaldið, hvort stefna í öðrum málefnahópum verður unnin með sama hætti og hvort reynslan af þessari vinnu sé fyrirmynd um stefnumótun og ákvarðanatöku úti í samfélaginu. Tilkynningin er send af Gunnari Smára Egilssyni, stofnanda flokksins, fyrir hönd bráðabirgðastjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert