Íbúar vilja finna lausn í sameiningu

Mótmæli við Rauðagerði.
Mótmæli við Rauðagerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar við Rauðagerði hafa vakið athygli á misbrestum sem þeir telja vera á máli vegna framkvæmda í nágrenninu og bíða nú eftir viðbrögðum Reykjavíkurborgar, umhverfisráðuneytisins auk annarra ráðuneyta og stofnana ríkisins. Þetta segir Björg Kristín Sigþórsdóttir, íbúi við Rauðagerði.

Nokkrir íbúar við Rauðagerði kærðu ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu strætóakreinar á Miklubraut ásamt gerð göngu- og hjólastígs og fleira. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði kærunni frá með úrskurði sínum þann 16. júní á þeim forsendum að framkvæmdaleyfið væri fallið úr gildi. Til stóð þó að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi og fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist að nýju á morgun. 

Á fundi íbúa með fulltrúum Reykjavíkurborgar í gær var ítrekuð sú ósk íbúanna að unnið verði í sameiningu að lausn málsins. Á þessu stigi málsins liggja ekki fyrir öll nauðsynleg gögn að sögn Bjargar.

Þá hafa Reykjavíkurborg og ríkið fengið undirskriftir yfir 170 aðila vegna kröfu um aukna hljóðvist og að mengun verði innan lýðheilsumarka. Auk þess hafa yfir 100 manns ritað undir áskorun til Reykjavíkurborgar og þeirra sem standa að fyrirhuguðum framkvæmdum þess efnis að ekki verði felld niður tré og að málið verði unnið í samráði við íbúa.

Sem fyrr segir vísaði Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá kæru íbúa frá því í maí sem beindist að ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja leyfi fyrir framkvæmdinni.

Mótmæli íbúa í nágrenninu urðu til þess að komið var …
Mótmæli íbúa í nágrenninu urðu til þess að komið var í veg fyrir að framkvæmdir héldu áfram á Miklubraut við Rauðagerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leyfi rann út áður en framkvæmdir hófust

Þeir íbúar sem kærðu gerðu þá kröfu að ákvörðun skipulagsfulltrúa yrði felld úr gild og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þótti málið nægilega upplýst að mati úrskurðarnefndar til að það yrði tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. apríl í fyrra var umsókn um framkvæmdaleyfi samþykkt og þann 10. maí 2016 var framkvæmdaleyfið gefið út með tveggja ára gildistíma. Fyrir liggur samkvæmt úrskurði nefndarinnar að framkvæmdir á grundvelli leyfisins hófust ekki innan tólf mánaða frá samþykki leyfisumsóknarinnar. Því verði að telja að framkvæmdaleyfið hafi verið fallið úr gildi en af þeim sökum hafi íbúar ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins kærða framkvæmdaleyfis. Var málinu því vísað frá.

Í samtali við Morgunblaðið um helgina sagði Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, að til stæði að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi svo framkvæmdir gætu haldið áfram.

„Við höfum tekið athugasemdir íbúanna til greina. Það er hinsvegar alveg ljóst að við munum halda áfram með framkvæmdirnar,“ sagði Hjálmar í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn. Kvaðst hann þá ekki geta staðfest hvenær framkvæmdir myndu hefjast að nýju en það færi eftir því hvenær nýtt leyfi yrði gefið út. Ekki náðist í Hjálmar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert