80 ótímabær dauðsföll vegna svifryks

Svifryk getur valdið fólki miklum óþægindum.
Svifryk getur valdið fólki miklum óþægindum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samband er á milli loftmengunar í Reykjavík og dauðsfalla meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins, en merkja má fjölgun í dauðsföllum einum til tveimur dögum eftir að að mælingar fara yfir heilsuverndarmörk um að rúmum fimm prósentum yfir sumarmánuðina.

Samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu EEA metur stofnunin að allt að 80 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar svifryks á Íslandi á hverju ári. Þá er samband er á milli notkunar hjarta- og astmalyfja og loftmengunar í Reykjavík.

Áhrif loftmengunar á heilsu manna hér á landi eru engu að síður með þeim minnstu samanborið við önnur Evrópulönd. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu um aðgerðarátætlun í loftslagsmálum Íslendinga, á vegum Umhverfisstofnunar.

Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að góðum loftgæðum og heilnæmu umhverfi í samræmi við lykilmarkmið stjórnvalda og stefnu Umhverfisstofnunar. Meginmarkmiðið er yfirlýsing um hvert sé stefnt í málefnum tengdum loftgæðum. Til að ná settu markmiði eru sett fram tvö undirmarkmið með röð aðgerða og skilgreindum ábyrgðaraðilum auk tímamarka. Fyrsta undir markmiðið er að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi og hið seinna er að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind mörk af völdum umferðar. 

Eftir reglugerðarbreytingu árið 2016 var aftur heimilt að fara 35 sinnum yfir mörkin, en frá árinu 2010 hefur styrkur svifryks farið mun oftar yfir leyfileg heilsuverndarmörk.  

Meðal þess sem aðgerðaráætlunin felur í sér er að breyta skattlagningu á bíla og eldsneyti og að hugað sé sparneytunum og vistvænum ökutækjum við innkaup ríkis- og sveitarfélaga á ökutækjum. Jafnframt að efla göngu, hjólreiða og almenningssamgöngur, rafvæða fiskimjölsverksmiðjur, kolefninsbinda með skógrækt og landgræðslu og stuðla að frekari rafbílavæðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka