Frekar rólegt en engin blíða

Von er á einhverri vætu um allt land um helgina.
Von er á einhverri vætu um allt land um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spár gera ráð fyrir hæglætis veðri um allt land um helgina en margir hugsa sér að leggja land undir fót fyrstu helgina í júlí. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að fólk geti gert ráð fyrir einhverjum dropum nánast á öllu landinu.

„Það er frekar rólegt veður og fremur hægur vindur víðast hvar,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún segir að það verði fremur skýjað um allt land og það megi búast við skúrum.

Svona verður staðan á hádegi á morgun ef spár ganga …
Svona verður staðan á hádegi á morgun ef spár ganga eftir. Ljósmynd/kort.mbl.is

„Veðrið er heldur betra á Norðausturlandi í dag en svo þykknar upp þar á morgun og þá birtir kannski einhvers staðar annars staðar til. Hitinn er víðast hvar 10-15 stig yfir hádaginn og það er hlýrra inn til landsins en þar má búast við meiri skúraleiðingum,“ segir Helga.

Hún segir engan sérstakan stað betri en annan ef fólk hefur í hyggju að leggja land undir fót um helgina. Fólk geti átt von á því að blotna eitthvað um allt land.

„Það kom einn skúr í Reykjavík í morgun og síðan hefur verið voða fínt og svo kemur kannski einn á eftir,“ segir Helga en nánast um leið og samtalinu lauk byrjaði að rigna. „Þetta er frekar rólegt en engin blíða. Við erum ekki að spá mikilli rigningu eða miklum vindi.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert