Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, segist ekki kannast við að þöggun hafi ríkt vegna atvik sem hafi átt sér stað fyrir einhverjum tíma síðan í einum skóla Hjallastefnunnar. Hins vegar kveðst hún harmar innilega ef aðstandendur barna í einhverjum Hjallastefnuskóla hafi upplifað slíkt.
Stöð 2 greindi frá því í gær að skólastjóra og starfsmanni í Barnaskóla Hjallastefnunnar hafi verið vikið tímabundið frá störfum vegna gruns um ofbeldi gagnvart fjórum börnum í skólanum sem tilkynnt hafi verið til barnaverndar. Þá lýsir móðir barns í samtali við Fréttablaðið í dag að hún upplifi að meint atvik hafi verið þögguð niður og gert lítið úr þeim.
„Ég harma innilega þessa upplifun foreldrisins en sjálf kannast ég ekki ekki við þöggun hjá okkur vegna mála sem upp koma. Viðkomandi móðir rifjar hér upp mál sem var farið vel yfir á sínum tíma af hálfu skólans og tekið á á þann hátt sem rétt þótti, m.a. með skriflegri áminningu“ segir Margrét Pála í samtali við mbl.is.
Vísar hún til þess að samkvæmt 35. grein barnaverndarlaga sé skýrt kveðið á um það að ef barnaverndarnefnd fær ábendingu um að atferli einstaklings, sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn, sé stórlega ábótavant skuli nefndin ef hún telur tilefni til hefja könnun málsins. Ákvörðun um könnun skal tilkynna viðkomandi starfsmanni og vinnuveitanda hans samkvæmt lögunum ef við á og skal nefndin tilkynna um niðurstöður könnunar til starfsmanns og vinnuveitanda hans og setja fram tillögur til úrbóta.
„Á sínum tíma var þetta eina mál ekki talið þess eðlis þar sem starfsmaður var áminntur og í kjölfar þess hætti starfsmaðurinn störfum í skólanum,“ segir Margrét Pála. „Það er vanalegt að eitthvað komi upp í skóla sem að þarf að ræða og skoða og að okkar mati er það ekki þöggun að mál séu unnin eftir þeim ferlum sem að eru almenn í skólum landsins.“