Í orlofi á heimili Sigmundar

Húsið að Hrafnabjörgum III í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði.
Húsið að Hrafnabjörgum III í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Félagsmönnum í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga gefst í sumar kostur á orlofsdvöl í húsinu að Hrafnabjörgum III í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði, en einmitt þar er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, með skráð lögheimili.

Lausar vikur í sumar

Félagið hefur húsið til umráða í tíu vikur í sumar og að undanförnu hafa félagsmenn dvalist í húsinu að Hrafnabjörgum, sem tekur tólf næturgesti og er vel búið að öllu leyti. Að því er fram kemur á orlofsvef hjúkrunarfræðinga er ein vika í húsinu laus í júlí og tvær í ágústmánuði.

Sigmundur Davíð flutti lögheimili sitt úr Reykjavík árið 2013 þegar hann flutti sig um kjördæmi og fór í framboð í Norðausturkjördæmi. Eiginlegt heimili Sigmundar og fjölskyldu hans er þó í Garðabæ.

„Þetta er góður staður“

„Það er virkilega ánægjulegt að hjúkrunarfræðingar séu á Hrafnabjörgum í fríinu sínu. Ég veit að Jónas bóndi hefur gjarnan leigt húsið út, enda er þetta góður staður. Hvergi er betra að dveljast í ró og næði þegar maður þarf frið til þess að vinna með hugmyndir eða finna lausnir á málum. Það á auðvitað jafnt við um heilbrigðisstarfsfólk og stjórnmálamenn,“ segir Sigmundur sem kveðst ætla að halda sig í Norðausturkjördæmi. Þau Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans, eru nú í leit að nýjum samastað þar og þar koma Eyjafjarðarsvæðið og Akureyri inn í myndina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert