Afinn sem fór á flug

Grampa Dave nýtur sín hátt uppi á Reynisfjalli. Þaðan er …
Grampa Dave nýtur sín hátt uppi á Reynisfjalli. Þaðan er stökkið í svifvæng fram af brún. Ásdís Ásgeirsdóttir

Vindar blása um Vík daginn sem blaðamann ber að garði. Svifvængjafólk kemst ekki í flug og því er nógur tími til að spjalla. Erindið er að hitta Grampa Dave, Kanadamann sem orðinn er þekktur í Vík í Mýrdal og setur sinn svip á bæinn. Þessi tæplega sjötugi ævintýramaður er sannur töffari; veðurbarinn með grátt skegg og speglasólgleraugu á höfði. Hann fékk nýlega gefins íslenska lopapeysu sem hann fer ekki úr. Á gallabuxunum hangir kringlóttur hátalari sem úr glymur tónlist af og til. Hann býður í bíltúr upp á Reynisfjall og svifvængjamaðurinn Gísli Steinar Jóhannesson, einn stofnenda svifvængjafyrirtækisins True Adventure, kemur með. Úr hátalaranum glymur hávær bluegrass-tónlist og við hossumst upp mjög grýttan veg sem liggur upp á fjallstopp. Á leiðinni upp segja þeir sögu af kínverskum ferðamanni sem álpaðist þessa leið en endaði á að velta bílnum niður bratta hlíðina. Traustvekjandi saga.

Grampa Dave finnst ekkert skemmtilegra en að svífa um í …
Grampa Dave finnst ekkert skemmtilegra en að svífa um í svifvæng yfir Vík í Mýrdal.

Sér eftir að hafa valið þetta nafn

Hvernig festist viðurnefnið Grampa Dave við þig?

„Það var út af Facebook, ég sór að ég myndi aldrei fara á Facebook. En svo þegar dóttir mín flutti til Suður-Afríku var þetta eina leiðin til að fylgjast með henni. Og hún var nýbúin að eignast fyrsta barnið og ég var orðinn afi. Mér er illa við að vera með sjálfan mig á veraldarvefnum þannig að ég bjó til nafn. Eitthvað sem er mér kært. Og úr varð Grampa Dave (Afi Dave).“

Og ertu kallaður það?

„Já, því miður. Ég sé núna smá eftir að hafa valið þetta nafn,“ segir hann og hlær.

Grampa Dave býr í afturhluta trukks. Þar útbjó hann sér …
Grampa Dave býr í afturhluta trukks. Þar útbjó hann sér notalegt afdrep en hann segist ekki þurfa mikið. Hann gaf allar veraldlegar eigur sínar fyrir nokkrum árum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjallahjól of hættulegt

Grampa Dave er frá Ottawa-svæði Kanada og bjó þar í fjörutíu ár. Fyrir fjórum árum tók hann upp á því að stökkva fram af fjalli í svifvæng. „Það gjörbreytti lífi mínu. Það voru reyndar tvö atriði sem breyttu lífi mínu; ég eignaðist barnabörn, og tók upp svifvængjaflug. Þannig að ég flutti á vesturströnd Kanada, þar sem hægt er að stunda svifvængjaflug.“

Dave er einhleypur í dag en var eitt sinn giftur og á eina dóttur og tvær afastelpur. Hann rak sitt eigið fyrirtæki sem hannaði og byggði viðarhús. „Eftir að ég fór á eftirlaun var ég allt í einu frír og frjáls og svo fæddist fyrsta barnabarnið og ég fór að hugsa um að láta líf mitt fara í allt aðrar áttir. Og ég gerði það og fór að stunda svifvængjaflug 64 ára,“ segir hann.

Af hverju svifvængjaflug, af hverju ekki frekar að fá sér mótorhjól?
„Þegar ég byggði eitt af síðustu húsunum mínum var það á vesturströndinni. Og þegar ég

kom þangað fékk ég íbúð og fjallahjól, en þarna var mikið um fólk á fjallahjólum. Þannig að ég hjólaði upp fjallið og dó næstum á leiðinni upp og drap mig næstum á leiðinni niður. Þann dag sá ég nokkra svifvængi svífa í loftinu. Og ég bað vini mína að kynna mig fyrir því fólki, því þessi fjallahjólamennska var aðeins of hættuleg fyrir mig. Og þannig byrjaði þetta allt saman,“ segir hann.

Svifvængjamaðurinn Gísli Steinar Jóhannesson og Grampa Dave eru góðir vinir. …
Svifvængjamaðurinn Gísli Steinar Jóhannesson og Grampa Dave eru góðir vinir. Saman hjálpa þeir ferðamönnum að láta flugdrauma rætast. Ásdís Ásgeirsdóttir

Eins konar hugleiðsluástand

Dave tók ástfóstri við flugið og flýgur hvern dag sem viðrar til flugs. „Það er þrennt sem heillar mig við flugið. Í fyrsta lagi að þegar ég stekk fram af fjallinu hugsa ég ekki um neitt annað. Maður er algjörlega einbeittur og þannig verður það eins konar hugleiðsluástand. Maður fókuserar á hreyfingu loftsins og hvernig vængurinn bregst við vindinum, maður hugsar ekki um neitt annað. Númer tvö er fólkið sem ég hitti sem er í þessu. Allir hugsa svipað. Ég myndi kannski ekki segja að fólkið sé klikkað, en vissulega klikkaðra en venjulegt fólk. Það er frábært að vera með þessu fólki, þetta verður eins konar fjölskylda. Og númer þrjú, bjórinn í lok dags,“ segir hann og brosir út í annað.

Hann segist hafa eignast vini um allan heim eftir að hann tók upp svifvængjaflug, en hann hefur ferðast til Mexíkó, Síle, Spánar, Tyrklands, Suður-Afríku, Evrópu og víða í Bandaríkjunum. „Ég skipulegg ferðir mínir með því markmiði að komast alltaf til Suður-Afríku þar sem barnabörnin búa, en þær eru átta og tveggja ára.“

Grampa Dave gantast fyrir neðan krot sem einhver húmoristinn hafði …
Grampa Dave gantast fyrir neðan krot sem einhver húmoristinn hafði skrifað á vegg á yfirgefni húsi uppi á Reynisfjalli. Hann ritaði svar á hinn hlemminn. Ásdís Ásgeirsdóttir

Sat fastur á trjátoppi

Hefurðu einhvern tímann komist í hann krappann við svifvængjaflugið?

„Nei. Ef við lítum á jaðarsport og hættur er mun hættulegra að stunda fjallahjólamennsku. Þar sem ég flýg á vesturströnd Kanada er sífellt verið að gera að sárum fjallahjólafólks; beinbrot, rispur og sár. Það er ekki oft sem svifvængjafólk þarf að leita til lækna. Þetta er frekar hættulaust jaðarsport.“

Gísli hvíslar að mér að eitt sinn hafi Dave verið einn að svífa yfir háum trjám í Kanada og það vildi þannig til að hann lenti á trjátoppi og sat þar fastur. Nú voru góð ráð dýr þar sem hann dinglaði þarna, en frá neðstu grein og niður á jörð voru tíu metrar og trjástofninn þykkur. Enginn var nálægt til að koma honum til bjargar. Hann dó ekki ráðalaus heldur tók af sér beltið, slengdi því í kringum stofninn og náði að fikra sig niður á jörðina. Hann var með lítinn vasahníf til að saga og skera greinar til að ná vængnum úr trénu og var nokkra klukkutíma að komast niður, að sögn Gísla.

Gaf allar veraldlegar eigur

Hvar býrðu hérna í Vík?

„Ég gerði upp afturpart af trukki,“ segir hann. Ekkert bað eða klósett er í vagninum en Dave er sáttur og fær að nota baðið á heimili sem er rétt hjá. „Þessar vistarverur eru frábærar,“ segir hann og sýnir blaðamanni rauðan vagn sem hann hefur smíðað smá pall í kringum. Hann býður inn í þennan 8-10 fermetra vagn. Þar má finna rúm, smá hillu, útilegustól, tölvu og að sjálfsögðu svifvænginn hans. Meira þarf ekki Grampa Dave.

„Fyrir svona fimm árum, þegar allt líf mitt breyttist, losaði ég mig við allar veraldlegar eigur. Ég á einn trukk í Kanada sem ég bý í þegar ég er þar og ég á reyndar enn hús sem ég leigi út, en ég losaði mig við alla hluti. Ég gaf allt sem ég átti og á bara svifvæng og smá tösku með fötum. Það er ótrúlega frelsandi tilfinning.“ 

Hann er ekki lofthræddur hann Grampa Dave.
Hann er ekki lofthræddur hann Grampa Dave. Ásdís Ásgeirsdóttir

Eltist við þjónustustúlkurnar

Nú er Vík ansi lítill bær. Leiðist þér aldrei?

„Nei. Mér líkar ekki að fara til Reykjavíkur,“ segir hann og útskýrir að hann sé sveitastrákur í eðli sínu.

Ég spyr Gísla hvort það sé mikil hjálp í Grampa Dave.

„Það er aðallega svo skemmtilegt að hafa hann,“ segir hann og hlær en bætir við að hann sé mjög góður starfskraftur. Til dæmis hyggjast þeir byggja hús og Dave kemur þar sterkur inn sem fyrrverandi hönnuður og húsasmíðameistari. Einnig eru þeir að skipuleggja 380 metra „zipline“, sem er stálvír sem verður strengdur yfir gil sem fólk getur rennt sér eftir. Og á dögum sem ekki er hægt að fljúga bjóða þeir upp á jeppaferðir með ferðamenn.

Dave segir að sér leiðist aldrei. „Það er alltaf eitthvað að gera hérna, kjafta við fólkið, drekka bjór og spila frisbígolf. Svo eltist ég við sætu þjónustustúlkurnar hér. Þær segja mér að hypja mig í burtu,“ segir hann í gríni.

Ertu eitthvað að fara á stefnumót með íslenskum konum?

„Nei, en ég er á Tinder ef einhver hefur áhuga!“ segir hann og brosir.

Ítarlegt viðtal við Grampa Dave er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert