Á að vera refsað fyrir dýraníð

Hallgerður segir að viðbragðsleysið gagnvart dýraverlferðarhlutanum sé sláandi.
Hallgerður segir að viðbragðsleysið gagnvart dýraverlferðarhlutanum sé sláandi. mbl.is/Rax

„Okkur finnst mjög alvarlegt mál ef hægt er að skera lamb á háls og einu afleiðingarnar eru bætur fyrir eignarspjöll og þjófnað,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, í samtali við mbl.is. „Dýraverndarhlutinn er algjörlega fyrir borð borinn, ef svo er.

Eins og áður hefur verið greint frá gómuðu ábúendur á Núpi í Berufirði í gær­kvöldi níu er­lenda ferðamenn sem höfðu hlaupið lamb uppi og skorið á háls. Hreinn Pét­urs­son, bóndi að Ósi, sem átti lambið sagði málið dapurlegt en að mennirnir hefðu verið þægilegir í samskiptum og fús­ir til að borga skaðabæt­ur, 30 þúsund krónur.

Hallgerður segir að hún hafi talað við dýralækni dýravelferðar hjá Mast, sem hafi ekki vitað af málinu. „Hún bað mig um að senda upplýsingar og við sendum beiðni um að því yrði fylgt eftir,“ segir Hallgerður en henni þykir að refsa eigi mönnunum fyrir dýraníð.

„Þetta snýr líka að lögreglunni, ef hún afgreiðir bara málið hjá sér sem eignaspjöll og þjófnað og sendir það ekki áfram til Mast þá er stjórnsýslan að bregðast gagnvart minni máttar, sem eru dýrin í þessu tilfelli,“ segir Hallgerður.

„Okkur í DÍS þykir sláandi sú áhersla sem birtist í viðbragðsleysi gagnvart dýravelferðarhlutanum. Það er brugðist við málinu, sannanir, játning og allt liggur fyrir en það er ekki brugðist við því sem það er að skera dýr á háls. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál ef stjórnsýslan umgengst mál á þann hátt að dýravelferð sé bara einhver aukastærð.“

Hún bendir á að áfram sé áríðandi að almenningur láti sig varða mál af þessu tagi og er þakklát fyrir viðbrögð fólks. „Við hvetjum fólk til að halda áfram að láta velferð dýra sig varða.“

Hallgerður segir boltann nú hjá Mast og lögreglunni. „Við fylgjumst með því hvað verður gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert