Séra Hjálmar Jónsson verður næstu fjóra mánuði þjónandi sóknarprestur á Staðastað á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar hefur sr. Páll Ágúst Ólafsson þjónað undanfarin ár, en ekki hefur verið full sátt um störf hans þar, meðal annars sakir þess að hann bjó ekki á Staðastað eins og hefðin bauð. Að sögn sr. Agnesar Sigurðardóttur, biskups Íslands, verður Hjálmar á Staðastað til hausts, en annað er ekki ákveðið viðvíkjandi þessu prestakalli.
Þess má geta að í síðustu viku var sr. Sveinn Valgeirsson af biskupi Íslands skipaður sóknarprestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, embætti sem hann sótti einn um. Síðustu ár hefur Sveinn verið prestur við sömu kirkju, en það starf verður auglýst laust til umsóknar innan tíðar.