Hreinn Pétursson, bóndi að Ósi sem átti lambið sem var slátrað í gærkvöldi, segir það mun verra þegar keyrt sé yfir dýr og þau séu skilin lifandi eftir. Lambið var hlaupið uppi og lógað af níu fullorðnum ferðamönnum en mbl.is greindi frá atvikinu fyrr í dag. Hann segir málið vera dapurlegt en að mennirnir hafi þó verið þægilegir í samskiptum og fúsir til að borga skaðabætur.
Hreinn segir að mikið hafi verið um að vera. Eltingaleikurinn milli mannanna níu og lambsins hafi gengið ágætan spöl, um kílómeters leið. „Þá var lambið orðið þreytt, ruglað og örvæntingafullt og líklega búið að gefast upp,“ segir Hreinn. Mennirnir króuðu lambið af út á fjöru og barst þá leikurinn út í sjó. „Lambið flýr út í sjó, það hafði enga undankomuleið. Þar handsama þeir það og lóga því þegar uppá land er komið,“ segir hann.
Lambinu sem var slátrað var mánaðargamalt hrútlamb, fætt 28. maí. Hreinn segir það hafa verið fullkomlega heilbrigt lamb. „Alveg glæsilegt lamb. Mikil afurð af því og geysilega fallegt. Það var þungt og mikið miðað við aldur,“ segir hann. Hreinn segist ekki vera búinn að jarða það, þar sem lögregla hafi beðið hann um að varðveita það í sólarhring enda sé það helsta sönnunargagn málsins.
Hann segir atvikið vera dapurlegt. „Manni líður svo sem ekki vel yfir þessu en það má segja að maður sé kominn með svo mikinn skráp eftir alls konar uppákomur, eins og þegar bílarnir keyra yfir kindurnar þar sem menn skeyta oft skapi sínu á saklausum skepnum.“
Hann segir móður lambsins hafa lent í hremmingum áður. „Hún hefur lent í áföllum áður kellingagreyið. Hún missti annað lambið sitt fyrir bíl fyrir nokkrum árum,“ segir Hreinn. Hann segir það atvik hafa verið skelfilegri slátruninni. „Ég fann hann helsærðan liggjandi út í kanti, og enginn lét vita,“ segir hann. „Það finnst mér nú eiginlega verra,“ segir hann, „ef maður horfir yfir þetta í sanngirni og heilt yfir, þá finnst mér þeir verri menn, þó svo þeir séu landar okkar, sem skilja eftir lifandi kind liggjandi í vegkanti, helsærða.“
Eftir að hafa fengið ábendingu um eltingaleikinn frá ábúendum á bænum Núpi, fór Hreinn ásamt fleirum til að athuga málið. Mennirnir, sem voru á tveimur húsbílum, hafi strax beðið Hrein um aðstoð við að draga annan bílinn sem sat fastur í sjávarmölinni. Hann hafi svarað að þeir þurfi að bíða rólegir eftir lögreglu. Þá hafi mönnunum orðið ljóst hvað málið snérist um.
Þá sá Hreinn ruslapoka aftast í einum bílnum. „Ég spurði þá: „Hvað er í þessum ruslapoka?“ og þeir svöruðu engu og ég tek þá pokann út úr bílnum og sé strax lambið,“ segir Hreinn. Hnífurinn sem notaður var til að slátra lambinu lá undir pokanum. Hann segir hnífinn hafa verið stóran, oddhvassan og blaðlangan, með um 25 sentímetra blaðlengd. „Þetta var dálítið svakalegt vopn,“ segir Hreinn og hlær.
Hreinn hrósar mönnunum fyrir ágæta framkomu þó þeir hafi ekki kunnað mikla ensku. Þeir hafi ekki sýnt nein viðbrögð þegar lambið fannst og hafi flestir verið þægilegir í samskiptum. Þau hafi því gengið vel fyrir sig þó sumir þeirra hafi verið með æsing, kallandi sín á milli. Skaðabætur voru greiddar á staðnum, að beiðni lögreglunnar, upp á 30.000 krónur. „Þeir borguðu skaðabætur mjög fúslega,“ segir Hreinn.
Hreinn veltir fyrir sér hvort atvik, lík því sem gerðist í gærkvöldi, séu að verða algeng eða hvort slátrunin hafi verið einstakt tilfelli. Hann spyr hvort hann eigi að eiga von á því að þetta verði óþarflega algengur atburður.