Í góðum málum sem eiga fasteign

Una Jónsdóttir hagfræðingur heldur erindi á fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn …
Una Jónsdóttir hagfræðingur heldur erindi á fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn í dag. mbl.is/Golli

„Þessi niðurstaða sýnir bara svolítið svart á hvítu að þjóðfélagið virðist vera í raun tvískipt. Það eru þeir sem að eiga fasteign og eru bara þar með í góðum málum, og svo eru það hinir.“ Þetta kom fram í máli Unu Jónsdóttur, hagfræðings hjá Íbúðalánasjóði, á kynningarfundi sem bar yfirskriftina „kemst fólk inn á húsnæðismarkaðinn?“ og fór fram í húsakynnum Íbúðalánasjóðs í dag.

Vísaði Una m.a. í könnun sem unnin var af hagdeild Íbúðalánasjóðs og Zenter þar sem þátttakendur voru m.a. spurðir hversu sammála eða ósammála þeir væru þeirri fullyrðingu að þeir byggju við húsnæðisöryggi. Í ljós kom að 91% þeirra sem búa í sínu eigin húsnæði telja sig búa við húsnæðisöryggi en einungis 45% þeirra sem eru á leigumarkaði.

Meiri stuðningur eftir því sem tekjur eru hærri

Meðal þess sem einnig kom fram á fundinum var að þau úrræði sem hið opinbera boðaði með lögum 111/2016, um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, nýtist hvað síst þeim sem mest þurfa á að halda. Þegar rýnt er í eftir tekjuhópum kemur í ljós að aðeins 7% af þeim tekjulægstu nýta sér úrræði hins opinbera um ráðstöfun séreignasparnaðar til fyrstu kaupa.

„Það er nefnilega eitt sem einkennir þetta tiltekna stuðningskerfi hins opinbera og það er að þetta er ekki eins og önnur tilfærslukerfi þar sem stuðningurinn er meiri þar sem tekjurnar eru lægri. Hérna er stuðningurinn, þ.e. þessi skattfrjálsa ráðstöfun á eigin sparnaði, hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur eru hærri. Við sjáum t.d. að til þess að geta fullnýtt úrræðið, 500.000 kr. á ári, þá þurfa tekjur að vera hátt í 700.000 krónur á mánuði,“ segir Una.

„Húsnæðisöryggi kemur ekki fyrr en að fólk hefur tök á að kaupa og þetta er eitthvað sem að þarf kannski að breyta,“ segir Una. Það sé athyglisvert einkum í ljósi markmiða laga um húsnæðismál en þar kemur fram að húsnæðisstuðningi hins opinbera sé ætlað að stuðla að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðismálum, í samræmi við þarfir hvers og eins.  „En niðurstaða sem þessi gefur til kynna að það búa ekki allir við jafnt húsnæðisöryggi,“ segir Una.

Fá úrræði í boði eins og staðan er núna

En hvað getur þessi hópur gert á meðan beðið er eftir að þau úrræði sem yfirvöld hafa boðað verði að veruleika?

„Það eru fá úrræði í boði eins og staðan er núna en við horfum að einhverju leyti björtum augum á framtíðina og húsnæðissáttmáli stjórnvalda gefur til kynna að það á að reyna að bæta úr þessari stöðu, þessu neyðarástandi,“ segir Una í samtali við mbl.is að fundinum loknum. Ríkið hyggst til dæmis veita aukafjárframlögum inn í kerfi leiguheimila en það var meðal þess sem boðað var með húsnæðissáttmála ríkistjórnarinnar sem kynntur var fyrir um mánuði.

„Vonandi sjáum við hér starfa heilbrigðan leigumarkað þar sem fólk getur búið við viðunandi kjör. Og svo verði kannski líka einhver úrræði til þess að hjálpa fólki að safna og ná þessu eiginfjárframlagi sem þarf til að kaupa íbúð eins og staðan er á markaði í dag,“ segir Una.

En eru einhverjar vísbendingar um það eins og staðan er á markaði núna að aðstæður fari að breytast til hins betra?

„Það hækkaði náttúrlega alveg gífurlega hratt núna, sérstaklega á fyrstu mánuðum þessa árs. Það hafa einhverjir verið að tala um að það sé ef til vill að róast og það er kannski of snemmt að segja til um það hvort við sjáum það koma fram í opinberum tölum en það er svona tilfinning manna,“ segir Una.

„Hækkanirnar voru svo miklar að þær geta ekki haldið áfram endalaust, á einhverjum tímapunkti þá róast aðeins. Þessi mikla hækkun er drifin áfram af framboðsskorti þannig að samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar ætti markaðurinn að róast þegar að framboðið birtist, þannig að við vonumst til þess að svo verði á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka