Nýtt stöðuvatn í Dómadal

Göngumenn ofan við vötnin tvö: Dómadalsvatn (t.v.) og hið nýja …
Göngumenn ofan við vötnin tvö: Dómadalsvatn (t.v.) og hið nýja stöðuvatn. Ljósmynd/Guðni Olgeirsson

Fólki sem var á göngu um Dóma­dal á milli Land­manna­hell­is og Land­manna­lauga brá nokkuð í brún á dög­un­um er það gekk fram á nýtt stöðuvatn á svæðinu. Vatnið er við hlið Dóma­dals­vatns og er álíka stórt. Það lok­ar nú veg­in­um um Dóma­dals­leið að hluta og því er ekki hægt að aka á milli Land­manna­lauga og Land­manna­hell­is bein­ustu leið eins og vant er á þess­um árs­tíma. Læk­ur seytlaði á milli vatn­anna tveggja þegar vatns­yf­ir­borðið var sem hæst og því ekki ómögu­legt að urriði, sem er að finna í Dóma­dals­vatni, hafi fundið sér leið yfir í hið nýja stöðuvatn. Það er þó ljóst að það mun hverfa síðar í sum­ar og er þess í raun að vænta á næstu vik­um.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni eru litl­ar tjarn­ir oft á þess­um slóðum, m.a. á vor­in, en óvenju­legt er að þær séu nú orðnar að stóru stöðuvatni þó að dæmi séu um það á árum áður. Skýr­ing­arn­ar eru ekki full­kunn­ar en grunn­vatns­staðan er há á svæðinu um þess­ar mund­ir.

Fjallvegir eru flestir opnir þessa dagana en hluti Dómadalsleiðar er …
Fjall­veg­ir eru flest­ir opn­ir þessa dag­ana en hluti Dóma­dals­leiðar er ófær vegna hins nýja stöðuvatns sem þar hef­ur mynd­ast. Skjá­skot/​Vega­gerðin

Skoða að gera hjá­leið

Ak­veg­ur­inn um Dóma­dal var op­inn fyrr í sum­ar en var svo lokað ný­verið vegna vatna­vaxt­anna. Til greina kem­ur, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Vega­gerðar­inn­ar, að gera hjá­leið, en slíkt þarf að fá samþykki op­in­berra aðila þar sem veg­ur­inn er inn­an friðlands­ins að Fjalla­baki. Óvíst er að af því verði í sum­ar en ef sag­an end­ur­tek­ur sig að ári verður það tekið til skoðunar. 

Guðni Ol­geirs­son, áhugamaður um göngu­leiðir að Fjalla­baki og höf­und­ur fræðslu­rits um Hell­is­manna­leið, var á göngu með hóp um um leiðina ný­verið er hann gekk fram á stöðuvatnið. „Þetta er auðvitað mjög áhuga­vert, að þarna sé allt í einu komið stöðuvatn,“ seg­ir Guðni í sam­tali við mbl.is. Hann hef­ur oftsinn­is gengið um svæðið áður en aldrei fyrr séð annað eins. „Það eru mjög sér­stak­ar aðstæður í vötn­um inni á Fjalla­baki núna. Það er ekki mik­ill snjór eða bleyta en grunn­vatns­staðan er svo há.“ 

Guðni seg­ir það þekkt frá fyrri tíð að mikið sé í vötn­un­um. „En það hef­ur oft verið tengt mikl­um snjóa­lög­um eða rign­ing­um.“

Hér sást vötnin tvö og stærð þeirra vel. Myndin er …
Hér sást vötn­in tvö og stærð þeirra vel. Mynd­in er tek­in 30. júní. Ljós­mynd/​Krist­ín Vala

Bú­ist við að vatnið þorni upp

Land­verðir í Friðlandi að Fjalla­baki vakta nýja vatnið og kanna ástand þess reglu­lega. „Það er tekið að minnka í því og inn­an fárra vikna verður það lík­lega horfið og hægt að opna veg­inn um Dóma­dal aft­ur,“ seg­ir Hring­ur Hilm­ars­son land­vörður. Hann seg­ir að eft­ir að vatnið þorn­ar upp verði að bíða í ein­hverja daga að minnsta kosti áður en óhætt verður að opna veg­inn. Vega­gerðin mun meta hvenær slíkt er tíma­bært.

Hring­ur seg­ir að þeir sem vel þekki til segi fleiri ár frá því að vatn sem þetta myndaðist á svæðinu. Hann seg­ist ekki vita hver or­sök­in sé, því verði sér­fræðing­ar að svara. „Ég hef heyrt að skýr­ing­in gæti verið sú að snjór­inn hafi bráðnað óvenju hratt í ár og svo hafi rignt ofan í þetta. Það renn­ur ekk­ert úr þessu vatni, jarðveg­ur­inn þarf að taka við öllu vatn­inu en er mettaður og hef­ur ekki við.“

Gróf­ur ut­an­vega­akst­ur

Hring­ur seg­ir að ekki sé hægt að stjórna nátt­úr­unni, hún verði að hafa sinn gang. „Fólk þarf að sætta sig við [lok­an­ir á veg­in­um].“

Það hafa hins veg­ar ekki all­ir gert. Dæmi eru um að fólk hafi ekki virt lok­an­ir sem eru beggja vegna veg­kafl­ans ófæra. „Fólk hef­ur smeygt sér á milli, komið að vatn­inu og ekki nennt að snúa við. Það hef­ur þá keyrt frek­ar gróf­lega utan veg­ar sem hef­ur valdið gróður­skemmd­um.“

Hér má sjá hvar nýja vatnið liggur yfir veginum um …
Hér má sjá hvar nýja vatnið ligg­ur yfir veg­in­um um Dóma­dal og er hann því ófær. Ljós­mynd/​Guðni Ol­geirs­son

Nýipoll­ur?

Að sögn Guðna er vatnið vissu­lega fal­legt þó að það hefti för ak­andi ferðamanna um svæðið sem sé miður og afar baga­legt fyr­ir ferðaþjón­ustu að Fjalla­baki. „En þetta gleður augað svo sann­ar­lega,“ seg­ir hann. 

Hring­ur land­vörður seg­ist kalla vatnið Nýja­poll. Þó að nafnið beri ekki glæsi­leika þessa nýja stöðuvatns með sér rím­ar það vel við önn­ur ör­nefni á svæðinu, s.s. Ljóta­poll og Hnausa­poll. 

Hvort „Nýipoll­ur“ sé kom­inn til að vera næstu sum­ur verður tím­inn að leiða í ljós.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert