Ekki standi til að lögleiða fjölsambönd

Victor Prada, Alejandro Rodriguez og Manuel Bermudez hafa fengið sambúð …
Victor Prada, Alejandro Rodriguez og Manuel Bermudez hafa fengið sambúð sína lögleidda í Kólumbíu. AFP

„Það hafa ekki verið neinar vangaveltur hér á landi um að breyta lögum í þessa veru,“ segir Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, um sambönd fleiri en tveggja einstaklinga.

Eins og mbl.is greindi frá á dögunum hafa kólumbísk lög heimilað samband þriggja manna þar í landi. Er ekki um að ræða hjónaband heldur sérstakt erfðafjársamband þeirra á milli.

Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla …
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fölskyldu- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hrefna segir að vissulega hafi verið fræðilegar umræður um ný fjölskylduform og sambönd fólks, en þær hafi aldrei komist á stefnumótunarstig. Hreyfiafl slíkra breytinga sé tvennt; tillit til mismunandi trúarbragða annars vegar og barneignir hins vegar. Hið fyrrnefnda snúi að fjölkvæni og sé mjög viðkvæmt pólitískt mál, en hið síðarnefnda snúi að því að börn geti átt fleiri en tvo foreldra.

Bendir hún á að norrænir fræðimenn hafi hvatt til þess að sett verði löggjöf um óvígða sambúð tveggja en jafnvel það hafi ekki komist á þetta stig. „Í norrænni löggjafarhefð hefur þetta víkkað út skref fyrir skref í fjölskydlumálum og það er farið frekar varlega en hitt að sumu leyti. En það er aldrei að vita,“ segir Hrefna.

Ekki komið upp sambærileg mál hér á landi

Kólumbísku mennirnir þrír búa saman sem fjölskylda og með nýju lögunum er hver og einn þeirra lagalegur maki hinna. Þeir leituðu löglegrar staðfestingar eftir að annar fyrrum maki þeirra lést, en þá segjast þeir hafa áttað sig á því að sama hversu mikið þeir sjálfir álitu sig fjölskyldu þá væri lagalega hliðin allt önnur.

Hrefna segist ekki vita til þess að nokkur sambærileg mál hafi komið upp hér á landi, þ.e. að einstaklingur hafi fallið frá og tveir eða fleiri hafi sagst hafa verið í sambandi með viðkomandi eða að í skilnaði hafi tveir eða fleiri gert tilkall við skipti. Vissulega séu sambúðir fleiri en tveggja einstaklinga samt til hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert