„Maður hættir ekki að hjóla“

Ryder Hesjedal hefur meðal annars unnið eina af stærstu hjólakeppnum …
Ryder Hesjedal hefur meðal annars unnið eina af stærstu hjólakeppnum heims, Giro d'Italia, árið 2012. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Á laugardaginn fer fram hjólakeppnin Kia Gullhringurinn í sjötta skiptið, en í ár verður kanadíski hjólakappinn Ryder Hesjedal meðal keppenda. Ferilskrá hans í hjólreiðunum er nokkuð tilkomumikil en hann vann heildarkeppni Giro d‘Italia árið 2012 og hefur tvisvar unnið dagleiðir í Vuelta a España, en um er að ræða tvö af stærstu götuhjólamótum hvers árs ásamt Tour de France, sem einmitt er í gangi þessa dagana. Hann hætti sem atvinnumaður í fyrra eftir um 17 ára atvinnuferil bæði á fjallahjóli og í götuhjólreiðum.

Hesjedal hefur verið hér á landi í um vikutíma og nýtt tímann í að ferðast um og auðvitað hjóla. mbl.is náði að heyra stutt í Hesjedal í gær en þá hélt Garmin-búðin grillveislu honum til heiðurs.

„Fæ líka að leika mér“

Hesjedal segir að heimsóknin til Íslands hafi verið æðisleg hingað til, en að tilgangurinn hafi í grunninn verið að taka þátt í Gullhringnum á laugardaginn. „En ég fæ líka að leika mér og hjóla á öðrum stöðum,“ segir hann. Spurður hvar hann hafi verið að hjóla nefnir hann ferð upp í Landmannalaugar auk þess að hjóla í og við höfuðborgarsvæðið. Vakti ferðin í Landmannalaugar sérstaka hrifningu hjá honum og landslagið á leiðinni þangað.

En hvað gerir fyrrverandi atvinnumaður til langs tíma í hjólreiðum eftir að ferlinum lýkur? Hesjedal segir að hann eigi enn eftir að átta sig almennilega á því, enda stutt síðan hann lauk atvinnumennsku. Þegar hann þurfi ekki lengur að mæta á öll mót og æfa gríðarlega mikið til að viðhalda sér í toppbaráttunni hafi orðið til merkilega mikill laus tími. „Núna hefur maður meiri frítíma til að njóta annarra hluta og að hjóla sér til skemmtunar og án stressins sem fylgir keppnunum,“ segir hann.

Síðan hann kom til landsins hefur Hesjedal verið duglegur að …
Síðan hann kom til landsins hefur Hesjedal verið duglegur að hjóla bæði á höfuðborgarsvæðinu og upp á hálendi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Finnst gaman að geta haldið áfram án þess að keppa

„En maður hættir ekki að hjóla,“ segir Hesjedal og þvertekur fyrir að hann sé kominn með nóg af hjólreiðum eftir áratugi á fullu í íþróttinni. „Kannski sumir hætti, en ég hef alltaf elskað að hjóla og það hefur verið viðamikill hluti af lífi mínu þannig að mér finnst gaman að geta haldið áfram, þó að það sé á öðrum hraða og á meira mismunandi vegu en áður,“ segir hann og bætir við að skemmtilegast þyki sér í dag að sjá nýja staði.

Sem fyrr segir ætlar Hesjedal að taka þátt í hjólamóti um helgina og því liggur við að spyrja hann hvort íslenskir keppnismenn megi búast við að þurfa að hafa mjög mikið fyrir því að halda í við hann. „Við skulum sjá til, þetta er fyrst og fremst gert til að njóta,“ segir hann og ítrekar að það sé upplifunin sem skipti hann mestu í dag. Þó laumar sér út pínu glott og þegar blaðamaður ítrekar spurninguna segir hann að það verði bara að koma í ljós hvernig þetta fari hjá honum um helgina.

393 wött í fimm klukkustundir

Margir íslenskir hjólreiðamenn þekkja vel að horfa á wattatölu þegar æfingar eru stundaðar og margir notast við svokallaða FTP-mælingu, en þá er reynt að meta hvað viðkomandi hjólari getur skilað að meðaltali mörgum wöttum á heilli klukkustund. Hesjedal segir að sjálfur hafi hann lítið notað þennan mælikvarða en til að setja hjólaformið hans, þegar hann var upp á sitt besta, í samhengi nefnir hann að í Giro d‘Italia árið 2015 hafi hann á einni dagleið skilað að meðaltali 393 wöttum yfir 5 klukkustunda keppni.

Síðan þá segist hann eitthvað hafa dalað og að hann hjóli ekki jafnhratt og áður. „En ég get enn hjólað allan daginn ef ég þarf þess og það er eitthvað sem ég hef gaman af,“ segir hann.

Það á eftir að koma í ljós hvort Hesjedal muni …
Það á eftir að koma í ljós hvort Hesjedal muni reyna að stinga íslenska keppendur af um helgina eða bara njóta þess að hjóla um uppsveitir Suðurlands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þú uppskerð eins og þú sáir

Undanfarin ár hafa hjólreiðar á Íslandi sótt mikið í sig veðrið og yfir 1.300 manns tóku meðal annars þátt í Wow cyclothoni í síðasta mánuði. Hefur mikil fjölgun verið hjá þeim sem æfa íþróttina og því liggur beint við að spyrja Hesjedal hvaða ráð hann hafi fyrir fólk sem vilji ná árangri.

Svarið kemur þeim sem hafa hjólað líklega lítið á óvart og segir Hesjedal að um sé að ræða vinnu og aftur vinnu. „Hjólreiðar eru íþrótt þar sem maður uppsker eins og maður sáir. Það er engin styttri leið eða kraftaverk í hjólreiðum.“ Segir hann að þeim mun meira sem fólk leggi sig fram og hjóli þeim mun meiri árangur sjái það. Þá séu hjólreiðar frábær leið til að finna meira út um sjálfan sig og komast yfir fyrirstöður sem fólk taldi áður ókleifar. „Það er hægt að ýta sér miklu lengra áfram en maður taldi mögulegt,“ segir hann að lokum.

Gullhringurinn fer sem fyrr segir fram á laugardaginn og lýkur skráningu núna á miðnætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert