Vegagerðin hefur kynnt drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Vestfjaðarvegi um Dynjandisheiði og á Bíldudalsvegi frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjaðarvegi á Dynjandisheiði.
Markmið framkvæmdarinnar er að opna heilsárshringveg um Vestfirði með því að bæta samgöngur um Vestfjarðaveg milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða og um Bíldudalsveg milli Bíldudals og Vestfjarðavegar. Gert er ráð fyrir að samgöngur á svæðinu verði áreiðanlegri og öruggari og að framkvæmdin hafi þar með jákvæð áhrif á samfélagið.
Núverandi Vestfjarðavegur er 41,1 km langur en gert er ráð fyrir að nýr vegur verði 35,4-39,2 km langur, háð leiðarvali. Áætlanir eru um að meta umhverfisáhrif þriggja veglína. Núverandi Bíldudalsvegur er 29,1 km langur en gert er ráð fyrir að nýr vegur verði aðeins styttri.
Í ósamþykktri samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjárveitingum til þessa verkefnis á öðru tímabili, þ.e. 2019 til 2022 og verklok yrðu á þriðja tímabili 2023 til 2026. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir Dýrafjarðargöngin gagnslítil nema af þessari vegagerð verði líka, svo þarna megi verða heilsársvegur.
Ekki er búið að tryggja fjármögnun framkvæmdarinnar.
Lesa má nánar um drögin að tillögu að matsáætlun á vef Vegagerðarinnar.