Slysum fjölgað með auknum vinsældum

Krakkarnir sem hjóla um Elliðaárdalinn láta yfirleitt ekki hjálmana vanta.
Krakkarnir sem hjóla um Elliðaárdalinn láta yfirleitt ekki hjálmana vanta. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjólreiðaslysum hér á landi hefur fjölgað undanfarin ár í takt við auknar vinsældir hjólreiðaiðkunar. Mest hefur slysum fjölgað í hópi 15 ára og eldri og langflest hjólreiðaslys eiga sér stað í þéttbýli. Samgöngustofa heldur utan um upplýsingar um hjólreiðaslys en erfitt er að halda utan um tölfræðina þar sem hjólreiðaslys eru vanskráð að sögn deildarstjóra hjá Samgöngustofu.

„Þetta er bara nokkuð beint upp á við og kannski bara í samhengi við fjölgun hjólreiðamanna,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðslunefndar á samhæfingarsviði Samgöngustofu, í samtali við mbl.is. „En það eru mjög mörg slys sem eru bara aldrei tilkynnt,“ bætir Gunnar við. Eðli málsins samkvæmt séu hjólreiðaslys því mjög vanskráð.

Hjólreiðaslysum hefur fjölgað í takt við auknar vinsældir hjólreiða.
Hjólreiðaslysum hefur fjölgað í takt við auknar vinsældir hjólreiða. Graf/Samgöngustofa

Slysaskrá Samgöngustofu byggir að mestu leyti á lögregluskýrslum en að litlu leyti einnig á tilkynningum frá tryggingafélögum í þeim tilfellum sem tryggingafélög hafa veitt vegaaðstoð á vettvangi. Í ljósi þessa eru því ekki til tölur yfir öll hjólreiðaslys þar sem ekki er alltaf tilkynnt um slysin.

„Ef að einhver dettur á hjóli þá fer hann ekki endilega og talar við lögregluna beint heldur fer bara á slysó ef hann slasast,“ segir Gunnar Geir. „Við getum hins vegar skoðað þróun í okkar grunni þannig að við sjáum hvort að það séu vísbendingar um að þessu sé að fjölga eða fækka.“

Þróunin gefi þó skýrt til kynna að slysum fer fjölgandi sem e.t.v. þarf ekki að koma á óvart þar sem vinsældir greinarinnar hafa farið vaxandi. „Þó að við höfum ekkert voðalega góðar tölur um það þá finn ég það að þetta hefur aukist mikið undanfarin ár,“ segir Gunnar.

Slysum fullorðinna fjölgað mest

Meðfylgjandi tölur yfir hjólreiðaslys byggja á fyrrnefndum gögnum frá árunum 2002-2016. Á tímabilinu hefur slysum fjölgað úr 44 skráðum tilfellum árið 2002 og upp í 137 árið 2016. Á tíu ára tímabili, frá árinu 2007-2016, fjölgaði slysum úr 63 í 137 eða um tæplega 46%. 

Tíðni hjólreiðaslysa eftir aldurshópum.
Tíðni hjólreiðaslysa eftir aldurshópum. Graf/Samgöngustofa

Tíðni barnaslysa hefur haldist nokkuð stöðug síðustu ár en á tímabilinu er aðeins skráð eitt banaslys sem var árið 2015. Þá hefur slysum fjölgað hvað mest í hópi 15 ára og eldri.

Áður fyrr voru slys á börnum á aldrinum 7-14 ára hvað algengust en það hlutfall hefur farið minnkandi eftir því sem fjölgað hefur í hópi fullorðinna sem stunda hjólreiðar.

Tegund hjólreiðaslysa. Hér ber að taka fram að skráning hjólreiðaslysa …
Tegund hjólreiðaslysa. Hér ber að taka fram að skráning hjólreiðaslysa breyttist talsvert á árunum 2006-2010 en fyrir þann tíma var skráningin „hjólreiðamaður fellur“ ekki til og slys skráð með öðrum hætti. Frá árinu 2010 hefur skráningin verið óbreytt hvað þetta varðar og allar breytingar á gögnum frá þeim tíma því raunverulegar breytingar. Graf/Samgöngustofa

Þá hefur tíðni alvarlegra hjólreiðaslysa verið nokkuð stöðug undanfarin ár en almennt eru alvarleg slys þó sjaldgæfari. Þó er líklegra að þau slys sem tilkynnt eru til lögreglu séu almennt alvarlegri en þau sem ekki eru tilkynnt og má þannig ætla að raunverulegur fjöldi lítið slasaðra sé talsvert meiri en þessar tölur segja til um.

„Í raun er engin ástæða til að ætla að hærra hlutfall tilkynni slys til lögreglunnar nú en áður þannig að við gerum ráð fyrir að slysum sé að fjölga,“ segir Gunnar.

Á tímabilinu 2002-2016 er aðeins skráð eitt dauðsfall sem var …
Á tímabilinu 2002-2016 er aðeins skráð eitt dauðsfall sem var árið 2015. Tafla/Samgöngustofa

Spurður um slys á erlendum ferðamönnum segir Gunnar að að langmestu leyti sé um að ræða slys á Íslendingum, að minnsta kosti miðað við þær tölur sem fyrir liggja. „Ég hugsa að útlendingar sem lenda í slysi á hjóli séu enn tregari við að hringja í lögregluna heldur en Íslendingar,“ segir Gunnar. „Við höfum í raun voðalega lítil gögn varðandi þróun slysa á erlendum ferðamönnum.“

Hjólreiðaslys ekki endilega umferðarslys

Fyrir nokkrum árum tók rannsóknarnefnd samgönguslysa saman skýrslu um hjólreiðaslys sem byggðu á spítalagögnum, þ.e. þegar fólk hefur leitað á sjúkrahús vegna áverka eftir hjólreiðaslys. Þó sú skýrsla hafi verið mjög nákvæm segir Gunnar Geir að afar erfitt sé að halda utan um skráningar slysa sem þessa og að engin ein leið sé endilega betri en önnur.

„Vandamálið við að taka spítalagögnin bara, er að hjólreiðaslys eru ekki endilega umferðarslys. Það er mjög erfitt að nálgast þetta og alls staðar í heiminum er mjög erfitt að gera sér grein fyrir réttri tölu,“ útskýrir Gunnar. „En ef að við erum alltaf að nota sömu aðferð til þess að meta hlutina þá getum við alla vega metið hvort að hlutirnir séu að vaxa eða minnka, þó að við höfum ekki akkúrat rétta tölu.“

Hjólreiðaiðkun fullorðinna hefur aukis á undanförnum árum og slys í …
Hjólreiðaiðkun fullorðinna hefur aukis á undanförnum árum og slys í hópi 15 ára og eldri sömuleiðis. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert