Geta barið til bana með vængjunum

Einstaka sinnum hafa birst í fjölmiðlum, m.a. hér á mbl.is, …
Einstaka sinnum hafa birst í fjölmiðlum, m.a. hér á mbl.is, myndir af álftum í miklum ham. Á neðri myndinni er álft að reka hundinn Glóa burt. Glói var eins og sjá má nokkuð skelkaður. mbl.is

Álftir eru yfirleitt stilltar í ævintýrunum og unun er að fylgjast með þessum tignarlegu fuglum á flugi eða sundi. En svanir eru misjafnir eins og þeir eru margir og eiga það til að verja egg og unga sína með kjafti og klóm, eða réttara sagt goggi og vængjum. Dæmi eru um að þeir hafi drepið lömb, hunda, tófur og aðra fugla. Mönnunum er heldur ekki óhætt í kringum þá er þeir eru í þessum ham. Þegar álft breiðir út vængina er því best að forða sér. Vængirnir geta breyst í aflmikið vopn á augabragði. 

Frétt mbl.is: Álft réðst á vinnuskólapilt

Ær og lamb hennar í Álftafirði áttu fótum sínum fjör að launa er álft lét til skarar skríða gegn þeim. Í fyrstu breiddi hún út sitt risavaxna vænghaf, sem getur verið rúmlega tveir metrar, en þegar kindurnar létu ekki segjast, eða réttara sagt forðuðu sér ekki nægilega hratt að mati álftarinnar, flaug hún að þeim og lét höggin dynja á ánni.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir þessa hegðun hvorki óeðlilega né óalgenga. „Það eru dæmi um að álftir hafi drepið kindur. Þá fljúga þær upp á bakið á þeim og berja þær með vængjunum,“ segir Jóhann sem man eftir sögu af álft í Tungunum fyrir nokkrum árum sem var felld þar sem hún hafði drepið mörg lömb með þessum hætti.

Hann segir þó ekki allar álftir árásargjarnar. „Það er einn og einn fugl sem hagar sér svona, oftast eru það nú karlarnir.“ Hann segir þekkt að þær skæðustu hafi drepið tófur, hunda, lömb og fugla. 

Álftir helga sér nokkuð stór óðul og eru ekki hrifnar af því að verpa í nágrenni við aðra fugla. Skiptir þá engu máli hvort það eru aðrar álftir eða fjarskyldari fiðraðir ættingjar. 

Jóhann Óli segir að árásargirnin sé að mestu bundin við þennan árstíma, þ.e. vor og sumar, þegar þær eru að verja egg sín og unga. 

Karlfuglinn getur verið tólf kíló að þyngd og vænghafið rúmlega tveir metrar. „Þeir eru mjög sterkir. Þeir eru svo þungir að þeir þurfa gríðarlegan kraft í vængina til að geta haldið sér á lofti.“

Álft að elta gæs. Hannes Þorsteinsson áhugaljósmyndari náði þessari áhugaverðu …
Álft að elta gæs. Hannes Þorsteinsson áhugaljósmyndari náði þessari áhugaverðu mynd af álft að elta gæs í Reykjavík á dögunum. Ljósmynd/Hannes Þorsteinsson

Álftir verpa oft í nágrenni manna, á tjörnum og vötnum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Nábýlið við manninn virðist þó ekki stilla skap álfta sem eru árásargjarnar að upplagi. „Nei, þeir kunna sig ekkert betur í þéttbýli,“ svarar Jóhann spurður um borgarsvanina. „Maki Svandísar, sem var á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi, var þekktur fyrir að vera ógnandi við fólk og var mjög harður í því að reka burt gæsir.“

Frétt mbl.is: Álft drap á annan tug æðarunga

En hvernig nákvæmlega fara álftir að því að drepa lömb og önnur dýr?

„Þær setjast á bakið á þeim og berja þau sundur og saman með vængjunum,“ segir Jóhann Óli. Slíkur er styrkurinn. 

Jóhann hefur ekki séð slíkt gerast sjálfur en man eftir álft sem hélt til á Elliðavatni fyrir margt löngu. Sú var það árásargjörn að hann hafði iðulega með sér prik til að verjast henni er hann var þar á ferð. Ef hann kom of nærri hreiðrinu barði hún hann með vængjunum. „Hún barði mjög fast. Maður fann alveg aflið. Vængirnir eru hennar helsta vopn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka