Ákvörðun um það hvaða leið verður farin við stækkun Laugardalsvallar verður að öllum líkindum tekin í haust. Nokkrar hugmyndir hafa verið kynntar fyrir hagsmunaaðilum sem meta nú hvaða leið verður farin.
Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag, sem kemur að verkefninu ásamt þýska fyrirtækinu Lagardére Sport, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða val á milli þriggja sviðsmynda. Í fyrsta lagi uppgerðs leikvangs eins og hann er í dag, í öðru lagi nútímalegri knattspyrnuvallar og í þriðja lagi fjölnota íþróttavallar.
Borinn verði saman kostnaður með tilliti til reksturs og tekna og svo sé það í höndum hagsmunaaðila að taka ákvörðun um hvaða leið verði farin. Helstu hagsmunaaðilar verkefnisins eru KSÍ, Reykjavíkurborg sem eigandi vallarins og ríkið þar sem um þjóðarleikvang er að ræða.
Pétur segir alla aðila vera tilbúna að skoða málið gaumgæfilega. „Það vita allir að staðan í dag er ekki ásættanleg og tíminn vinnur ekki endilega með okkur,“ segir hann og bendir á breytingu á leikjafyrirkomulagi landsleikja í Evrópu þannig að leikirnir fari fram í mars og nóvember. „Við erum ekki með löglega velli í það eins og stendur. Það þarf því að taka ákvörðun sem fyrst.“
Auk þess sé gríðarlegur áhugi á bæði kvenna- og karlaknattspyrnu hér á landi, sem kalli á bættar aðstæður.