Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort máli Adolfs Inga Erlingssonar gegn Ríkisútvarpinu verði áfrýjað af hálfu RÚV. Ríkisútvarpið var í gær dæmt til að greiða Adolfi Inga 2,2 milljónir í bætur auk 1,4 milljóna í málskostnað vegna eineltis og uppsagnar, en honum var sagt upp störfum í nóvember 2013.
Að sögn Margrétar Magnúsdóttur, skrifstofustjóra RÚV, verður dómurinn skoðaður á næstu dögum og ákvörðun tekin um áfrýjun í framhaldinu.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Adolf að um væri að ræða fullnaðarsigur fyrir sig. Sagði hann að bæði væru honum dæmdar bætur fyrir einelti og þá komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi verið ólögleg. Segir í dómnum að RÚV hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögninni og því sé hún ólögmæt og að Adolf eigi rétt til skaðabóta.
„Maður vill frekar vinna en að tapa, en það er margt sem ég hefði frekar viljað en að fara þessa leið,“ sagði hann. „Í fyrsta lagi hefði ég frekar viljað vera laus við að fá yfirmann frá helvíti. Í öðru lagi að þáverandi yfirstjórn hefði mátt sýna þann manndóm að takast á við málið þegar það kom upp og í þriðja lagi hefði ég viljað að núverandi útvarpsstjóri hefði meint eitthvað þegar hann sagðist vilja leita sátta í málinu.“