Búið er að loka neyðarlúgu í skólpdælustöð við Faxaskjól þar sem 750 lítrar af skólpi hafa flætt út í hafið á sekúndu seinustu daga. Er skólpið því hætt að renna út í sjó, en um er að ræða bráðabirgðalausn. Á mánudag verður reynt að koma stöðinni í rétt horf.
Eins og greint var frá í gær er skólpdælustöðin við Faxaskjól biluð og hefur skólp því flætt út í hafið síðustu tíu daga. Sagði umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í samtali við mbl.is fyrr í dag að um mjög bagalega stöðu væri að ræða.
Frétt mbl.is: 750 lítrar af skólpi á sekúndu
Fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fóru að fjörunni við Faxaskjól í dag til að meta stöðuna og hvort það þyrfti að fara í hreinsiaðgerðir. Að sögn Svövu Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, var ekkert að sjá í fjörunni sem gaf ástæðu til þess að það þyrfti að hreinsa hana.
Þá voru sýni tekin á svæðinu í dag en frumniðurstöður ættu að verða ljósar eftir sólarhring.
Dælustöðin við Faxaskjól flytur skólp frá Norðlingaholti, hluta Árbæjar, Breiðholti, Fossvogi, Garðabæ og Kópavogi í skólphreinsistöðina í Ánanaustum.
Samkvæmt frétt á vef Veitna í dag kom í ljós að mikill leki sjávar var meðfram lokunni inn í stöðina. Undanfarið hafi starfsmenn Veitna unnið hörðum höndum að viðgerð en tafir hafi orðið vegna aðstæðna.
Bilunin var tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þegar hún kom upp. Niðurstöður sýnatöku frá því í júní sýndu að gildin féllu innan þeirra marka sem heimil eru fyrir baðstaði í náttúrunni.
Skólphreinistöðin í Ánanaustum var sú fyrsta sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu en hún var tekin í notkun árið 1998 og hreinsaði hún skólp frá 57% íbúa Reykjavíkur. Fram að því rann allt skólp óhreinsað í sjóinn. Árið 2002 var svo hreinsistöðinni í Klettagörðum bætt við og 2005 var sett upp dælustöð fyrir skólp í Gufunesi sem tengdi fráveitu í Grafarvogi og Grafarholti við hreinsistöðina í Klettagörðum. Með þessum framkvæmdum voru 99,5% íbúa höfuðborgarsvæðisins tengd fráveitu með hreinsistöð að því er fram kemur í frétt Veitna.