Hægt er að leigja tjald á tjaldsvæðinu Hamragarði við Seljalandsfoss fyrir tæpar 14.000 krónur nóttina. Gestgjafinn leigir út 22 tjöld um landið í heild, í gegnum vefsíðuna Airbnb. Rekstraraðilar tjaldsvæðisins framleigja aðstöðu tjaldsvæðisins frá sveitarfélaginu til gestgjafans. Nóttin á tjaldsvæðinu án tjalds og þjónustu kostar 1.300 krónur fyrir fullorðinn einstakling.
Ekki er að finna rekstrarleyfi fyrir gistingarplássið á skrá sýslumanns og hvorki byggingarfulltrúi sveitarfélagsins né leyfisveitingamaður þess kannast við slíka umsókn. Skiptar skoðanir eru þó um hvort þörf sé á slíku leyfi.
Grunnverð tjaldsins er breytilegt en í nótt til dæmis er það 89 evrur, eða 9.442 íslenskar krónur. Með 13 evru ræstingagjaldi (1.534 krónur) og 16 evru þjónustugjaldi (1.888 krónur) er heildarverðið fyrir einnar nætur gistingu í tjaldinu 118 evrur eða tæpar 14.000 krónur. Tjaldið er auglýst með allri þjónustu sem tjaldsvæðið sjálft býður upp á, eins og baðherbergi, þvottavél, eldunaraðstöðu og sturtu. Með tjaldinu fylgja tvær vindsængur og tveir að hámarki geta gist í því.
Gestgjafi tjaldsins telst vera „ofurgestgjafi“ samkvæmt síðunni og virðast flestir, sem nýta sér þjónustu hans, ánægðir með hana. Á vefsíðu hans kemur fram að hann sé ung íslensk kona sem vinni í ferðaþjónustu og heiti Þóra. Hún leigir ekki aðeins þetta eina tjald út heldur leigir hún út í heildina fimm tjöld á svæðinu. Þar fer dýrasta tjaldið án sérstakrar dagsetningar á grunnverðinu 102 evrum eða á 12.174 krónur. Í heildina býður hún svo upp á 22 tjöld í kringum landið, þar sem hægt er að gista hjá Skógafossi, Gullna hringnum, Selfossi, Hveragerði og Stafafelli. Þóra vildi ekki tjá sig um málið.
Rangárþing eystra leigir rekstur tjaldsvæðisins til ferðaþjónustufyrirtækisins South Coast Adventures, sem rekur nú svæðið. Annar eigandi fyrirtækisins, Þorgerður Jóna Guðmundsdóttir, segist vita af leigunni en þetta sé þó ekki á þeirra vegum. Þetta sé aðili sem fái að leigja aðstöðu frá þeim fyrir tjöld. Í samtali við blaðamann mbl.is segir Þorgerður reksturinn nýjan af nálinni og þetta sé til að vera með fjölbreytni. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið frekar.
Samkvæmt vefsíðu tjaldsvæðisins er almennt verð fyrir fullorðna 1.300 krónur nóttin, en 1.000 krónur fyrir eldri borgara og frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Aftur á móti fylgir tjald ekki með og heldur ekki rafmagn (1.000 krónur), sturta (300 krónur skiptið) og aðgangur að þvottavél (500 krónur).
Til þess að geta leigt út gistipláss á Airbnb þarf almennt rekstrarleyfi. Ef gistiplássið er aðeins til leigu í 90 daga og hefur undir tvær milljónir íslenskra króna í tekjur er um að ræða svokallaða heimagistingu (sem fer fram á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af). Slíkur rekstur þarf ekki starfsleyfi en áfram ber eigendum sem hyggjast leigja út fasteign í heimagistingu þó að greiða skráningargjald vegna heimagistingar sem samtals nemur 8.560 krónum.
Egill Benediktsson, sem sér um leyfisveitingar fyrir sveitarfélagið, segist ekki kannast við að hafa séð umsókn um leyfi fyrir tjaldi áður. Á heimasíðu sýslumanns er þau ekki heldur að finna á skrá. Egill segist þó ekki taka afstöðu til þess hvort slíkt leyfi þurfi.
Anton Kári Halldórsson, byggingarfulltrúi sveitarfélagsins, kannast ekki við leiguna en segir að til þess að bjóða upp á slíka gistingu þurfi líklega rekstrarleyfi og ekki hafi verið sótt um slíkt. „Mér finnst það undarlegt, og það væntanlega þurfa að liggja einhver leyfi fyrir og það hefur ekki verið sótt um slíkt leyfi. Það er boðið upp á svona þjónustu annars staðar og það eru staðir sem eru með leyfi. Það verður bara að skoða það,“ segir Anton.