Kviknað hefur í vindmyllu fyrirtækisins BioKraft í Þykkvabæ. Mikinn reyk má sjá stíga upp úr vindmyllunni.
Þykkvabær er á svæði Brunavarna Rangárvallasýslu sem nú er að störfum við vindmylluna en að sögn slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu er körfubíll á leiðinni frá Brunavörnum Árnessýslu á leiðinni.
Myllurnar eru danskar, af tegundinni Vestas. Þeir eru festir á 53 metra háa turna. Það þýðir að í hæstu stöðu er hvor mylla liðlega 70 metra há, eða jafnhá Hallgrímskirkju. Myllurnar stóðu áður úti í Þýskalandi en voru teknar niður til að rýma fyrir öðrum stærri.
Uppfært klukkan 13:02
Bjarnveig Björk Birkisdóttir var meðal fyrstu á vettvang. Hún segir þetta allt hafa gerst mjög hratt, en núna sé eldurinn orðinn minni en hann var í fyrstu. „Slökkviliðið er á leiðinni, en ég veit svosem ekki hvað þeir geta gert,“ segir Bjarnveig en hún varð vitni að því þegar hluti úr vindmyllunni féll í jörðina vegna brunans.
Uppfært klukkan 13:07
„Það eru smá glæður í henni ennþá en það mesta er búið,“ segir Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Rangárvallasýslu, í samtali við mbl.is. Ekki er vitað að svo stöddu hvað olli eldinum að sögn Leifs.
„Það er eiginlega óhjákvæmilegt að slökkva í þessu nema utanfrá og við erum enn að bíða eftir körfubíl frá Selfossi,“ segir Leifur.
Eldurinn logar uppi í vindmyllunni en líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði var einnig reykur fyrir neðan mylluna. Að sögn Leifs er þar um að ræða brask sem hefur fallið niður úr myllunni.