„Er mjög heppinn hvítblæðissjúklingur“

Hildur Karen ætlar að styrkja vinkonur sínar á blóðlækningadeild Landspítalans.
Hildur Karen ætlar að styrkja vinkonur sínar á blóðlækningadeild Landspítalans. Mynd/Hildur Karen

Hildur Karen Sveinbjarnardóttir greindist með bráðahvítblæði í nóvember á síðasta ári. Hún er nú stödd í Svíþjóð þar sem hún er að jafna sig eftir mergskiptaaðgerð og stefnir á að komast heim fyrir júlílok. Í ágúst hyggst hún svo hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og safnar hún áheitum á Hlaupastyrkur.is til að styrkja vinnuferð starfsfólks blóðlækningadeildar Landspítalans. Hildur Karen eyddi drjúgum tíma á deildinni fyrstu mánuðina eftir að hún greindist og tengdist starfsfólkinu góðum vinaböndum. Hún vill þakka fyrir sig með því að leggja pening íferðasjóðinn.

Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum fjórar lyfjameðferðir og mergskiptaaðgerð, sem hafa tekið sinn toll af líkama hennar, er Hildur Karen nokkuð brött og er bjartsýn á að henni gangi vel að komast þessa 10 kílómetra.

Hún er allavega komin á ról og var einmitt bara á röltinu í miðbæ Stokkhólms þegar blaðamaður náði tali af henni. „Ég býð bara eftir að fá grænt ljós frá læknunum um að komast heim,“ segir Hildur Karen, en hún hefur verið í Svíþjóð frá því í lok aprílmánaðar. „Ég þarf að vera komin heim fyrir 29. júlí, því þá ætla ég að veislustýra brúðkaupi á Seyðisfirði. Þetta er keppni við tímann núna,“ segir hún hlæjandi.

„Ég er búin að vera rosa heppin. Þetta er mánuður á spítala sem er helvíti harður, en ég er búin að vera mjög heppin eftir það,“ segir hún og vísar þar til mergskiptaaðgerðarinnar. „Nú bý ég bara í nágrenni við Stokkhólm, er með ágætisþrek og hef verið frekar heilsuhraust miðað við allt sem á undan er gengið.“

Hóf meðferð sólarhring eftir greiningu

Hildur Karen greindist með bráðahvítblæði í lok nóvember á síðasta ári. Hún var þá búin að vera veik í langan tíma, ítrekað með háan hita og átti erfitt með að borða. „Mér fróðara fólk sagði mér að fara á bráðamóttökuna, þar sem þetta greindist strax í fyrstu blóðprufu.“

Í kjölfarið var hún lögð inn á blóðlækningadeild 11G þar sem hún hóf lyfjameðferð sólarhring eftir að hún kom á bráðamóttökuna.

Hildur Karen greindist með bráðahvítblæði í nóvember á síðasta ári.
Hildur Karen greindist með bráðahvítblæði í nóvember á síðasta ári. Mynd/Hildur Karen

Aðspurð segir hún lyfjameðferðirnar hafa gengið vonum framar, en hún fór í fjórar slíkar á Íslandi áður en hún hélt til Svíþjóðar í mergskiptaaðgerð. „Ég fékk stofnfrumur frá 26 ára gömlum Þjóðverja, sem ég veit í raun ekkert meira um. Hann var bara skráður í stofnfrumuskrá. Þetta virðast vera rosa góðar stofnfrumur. Þær eru fljótar að „kicka“ inn og það gengur allt rosa vel. Þetta var mjög erfitt þegar ég lá á spítalanum en síðan þá hef ég haft það fínt. Ég er mjög heppinn hvítblæðissjúklingur,“ segir hún kímin.

Fer 10 kílómetra fyrir vinkonurnar á 11G 

Ekki fara allir hvítblæðissjúklingar í mergskipti, en Hildur Karen segir algengt að yngra fólk fari, enda auki slík aðgerð batahorfurnar. Það þurfa þó ákveðnir þættir að vera til staðar svo mergskipti séu framkvæmd. „Þetta tekur sinn toll af líkamanum. Það er upplagt að fara í þessa aðgerð, en það eru ekki allir sem þola hana.“ Í hennar tilviki hefur allt gengið vel og hún er bjartsýn á að þannig haldi það áfram að vera. Hún ætlar að minnsta kosti að vera tilbúin að takast á við hlaupið í ágúst.

„Það væri reyndar líklega frekar víð skilgreining ef ég segðist ætla að hlaupa, en ég ætla alla vega að fara 10 kílómetra fyrir vinkonur mínar á blóðlækningadeildinni. Þær eru að fara til Manchester að kynna sér blóðlækningadeildir þar. Ég ætla sérstaklega að styrkja þá ferð,“ útskýrir hún.

Hildur Karen segir hugmyndina hafa komið upp í samtali við starfsfólkið á deildinni. „Það eru töluvert margar gistinæturnar sem ég hef eytt á 11G þannig mér er farið að þykja mjög vænt um þessar konur, og karla.“ Hún vill sýna þakklæti sitt í verki með því að safna áheitum.

Komin langt yfir markmiðið

„Ofursnapparinn Guðrún Veiga ætlar að fara með mér. Hún á bara eftir að skrá sig. Með því að nefna það hérna í viðtali á mbl.is þá kemst hún eiginlega ekki hjá því,“ segir hún hlæjandi og skorar hér með á vinkonu sína.

Hildur Karen segist ekki vera mikill hlaupari, en var þó aðeins byrjuð að fikta við hlaup ári áður en hún greindist með hvítblæðið og fór 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Hún veit því við hverju er að búast.

„Ég er mjög bjartsýn á að þetta gangi vel hjá mér. Ég er ekki að fara að setja nein met, en ég held að þetta verði ekkert mál. Ég stefni alla vega á að klára. Það er markmiðið.“

Markmið Hildar Karenar í upphafi var að safna 50 þúsund krónum, en þegar þetta er skrifað er hún komin langt yfir þá upphæð og hefur safnað tæplega 170 þúsund krónum. „Þetta var líklega vanmat hjá mér. Ég verð að fara að breyta þessu markmiði og setja þetta upp í einhverja hundraðþúsundkalla.“

Þeir sem vilja heita á Hildi Karen geta gert það hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka