„Mótsstjórn tók þá ákvörðun að allir sem voru fyrir framan slysið kláruðu keppni og voru að ljúka henni. Það voru ekki mjög margir, því þetta voru með fremstu mönnum,“ segir Einar Bárðarson, forsvarsmaður Kia-Gullhringsins, í samtali við mbl.is.
Eins og greint var frá fyrr í kvöld var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna hjólreiðaslyss þegar fimm keppendur skullu í jörðina. Einn er alvarlega slasaður en þyrlan er lent við Landspítalann í Fossvogi.
„Vegna slyss við Brúará fyrr í kvöld er keppni fyrir aftan slysið lokið – henni er breytt í samhjól í fylgd björgunarsveita heim að Laugarvatni. Keppendur fyrir framan slysið halda áfram keppni,“ er skrifað á Facebook-síðu keppninnar.