„Auðvitað er þetta búið að vera mjög svekkjandi allan tímann. Manni líður ekki vel að vera settur svona upp við vegg; annaðhvort selurðu eða við tökum þetta,“ segir Akureyringurinn Níels Karlsson í samtali við mbl.is. Hann var neyddur til að selja Akureyrarbæ húsið sitt, Steinnes, því samkvæmt aðalskipulagi átti að rífa húsið svo að bæta mætti íþróttaaðstöðu Þórs.
Níels og eiginkona hans byggðu húsið og hafa búið í því í 30 ár en verða að yfirgefa húsið um næstu mánaðamót.
„Í lok janúar 2008 var samið við bæinn um að þeir keyptu Steinnes gegn því að við fengjum að leigja af bænum húsið til 1. júlí 2014 meðan við værum enn á vinnumarkaði. Þetta voru myrkir dagar í okkar lífi og ótrúleg framkoma Akureyrarbæjar gagnvart okkur, en lögin voru þeirra með vísan í aðalskipulag bæjarins. Við fengum síðan 3 ára framlengingu á leigu til 1. júlí 2017 vegna atvinnu okkar og erum nú um mánaðamótin að flytja úr húsinu,“ skrifar Níels á Facebook-síðu sína.
Samkvæmt nýju aðalskipulagi Akureyrarbæjar fyrir árin 2018-2030 á hins vegar ekki að rífa húsið. „Það sem við erum svekktust yfir er að hafa frétt fyrir hálfum mánuði að þessu hafi verið breytt og húsið verði nýtt sem íbúðarhús. Sá gjörningur fer verst í okkur,“ segir Níels við blaðamann.
„Það hefur ekkert breyst í umhverfinu frá því þeir sögðu að það yrði að rífa húsið. Nú breyta þeir skipulaginu þannig að þeir geta nýtt þetta sem íbúðarhús,“ bætir Níels við.
Ein athugasemd við færslu Níelsar á Facebook er á þá leið að hann og eiginkona hans eru hvött til að fá sér lögfræðing og láta athuga hvort ekki sé hægt að rifta samningnum um kaup bæjarins á húsinu. Aðalskipulagið sé breytt og þar af leiðandi séu forsendur fyrri samnings ekki raunhæfar lengur.
Níels efast um að þau hjónin fari lengra með málið. „Við erum hætt að vinna og ég efast um að við nennum að eyða næstu árum í að ergja okkur frekar yfir þessu. Ég vildi með þessari færslu vekja athygli á þessu siðferði sem býr að baki. Okkur finnst að bærinn hafi ætlað að komast yfir eignina með þessum hætti. Okkur finnst eins og það sé búið að stela af okkur en ætlum ekki að standa í málaferlum. Þetta er búið, held ég,“ segir Níels en hann og eiginkona hans flytja til Hafnarfjarðar.