Blómabeðið getur valdið myglu innandyra

Skortur á viðhaldi er einn þeirra þátta sem geta leitt …
Skortur á viðhaldi er einn þeirra þátta sem geta leitt til raka og myglu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mygla í húsnæði orsakast fyrst og fremst af einhvers konar vatnstjóni. Ef hægt er að komast fyrir raka, er hægt að komast fyrir myglu. Þetta eru ekki ný tíðindi, en vandinn er hins vegar sá að ekki er hægt að segja til um það í öllum tilfellum hvað veldur því að rakinn kemst inn í húsnæði.

Líkt og mbl.is hefur greint frá má nánast ganga svo langt að tala um faraldur þegar kemur að útbreiðslu og fjölda tilfella mygluvandamála sem komið hafa upp í húsnæði hér á landi síðastliðinn áratug. Sérfræðingar vita í raun ekki hvað veldur þessum nýtilkomna vanda, enda skortir fjármagn til rannsókna á rakavandmálum og myglu hér á landi. Slíkar rannsóknir lögðust í raun af fyrir nokkrum árum.

„Við erum auðvitað að tala um fjölþætt vandamál. Það geta verið svo margar og mismunandi ástæður fyrir rakavandamálum. Allt frá veðurfari upp í skort á viðhaldi,“ segir Kjartan Guðmundsson, lektor í húsagerð við KTH í Svíþjóð.  „Við erum kannski að taka aðferðir frá ákveðnum löndum og nota hér á landi þar sem er annað veðurfar, það getur verið vandamál. Notkun húsnæðis breytist, fólk innréttar öðruvísi eða fleiri flytja í íbúðirnar. Þá verður meiri rakamyndun. Svo getur verið skortur á loftræstingu. Val á byggingaraðferðum er einnig vandamál. Það getur bæði verið þannig að menn velji aðferðir sem passa ekki aðstæðum eða hanni vitlaust, eða hanni of lítið kannski.“

Útbúa leiðarvísi fyrir viðhald

Kjartan segir það einmitt allt of algengt að verkkaupar tími einfaldlega ekki að leggja fé í að ljúka hönnun, sem er bagalegt, þar sem hönnuðir viti oft mun meira en þeir fá færi til að sýna. Hann segir viðhald líka eitt af lykilatriðum í að fyrirbyggja rakamyndun, og þá sé gott að hafa í huga að líftími efna er ekki óendanlegur.

Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, tekur undir með Kjartani. „Þú lætur skoða bílinn þinn einu sinni á ári og langflestir senda bíl í ástandsskoðun áður en þeir kaupa hann. Fólk ætti að nýta sér það í mun meira mæli að fá ástandsmat á eignina sína. Ef þú kaupir án þess að skoða, þá geturðu ekki vitað hvort það er mygla í húsnæði.“

Svo virðist sem mygla í húsnæði hafi orðið að faraldri …
Svo virðist sem mygla í húsnæði hafi orðið að faraldri á Íslandi. Mynd/RB

Ólafur segir standa til að útbúa leiðarvísi fyrir húsnæði til að auðvelda fólki að átta sig á hvað þurfi að gera til að viðhalda eignum. „Í mínum gömlu skólabókum var talað um að 2,5 prósent af fasteignaverði ætti að fara í viðhald. Á Íslandi höfum við stundum talað um 0,5 til 1 prósent, en það verður einhvern veginn að gera ráð fyrir að halda þurfi eignum við. Ég efast um að það sé gert ráð fyrir því í fjárlögum að ákveðin upphæð renni í viðhaldssjóð opinberra bygginga. Það eru því allir undrandi þegar skaði kemur í ljós. Fólki finnst ekki spennandi að leggja pening í þetta.“

Ekki setja skáp og hillu við útvegg

En hvers vegna raki og mygla fór að verða svo umfangsmikið vandamál hér á landi fyrir tíu til fimmtán árum er í raun ráðgáta, þó að ýmsar kenningar séu uppi. Vert er að hafa í huga að íslensk veðrátta er öðruvísi en annars staðar, við kyndum húsin okkar öðruvísi en aðrar þjóðir og loftum minna út. Eftir hrun hækkaði verð á heitu vatni og gluggar voru minna opnaðir til að halda hitanum inni. Þessir þættir hafa eflaust sín áhrif.

Svo hafa verið uppi hugmyndir um að vandamálið megi að stórum hluta rekja til íslenska útveggjarins, en Ólafur bendir á að það geti ekki átt við í öllum tilfellum. Máli sínu til stuðnings vísar hann til fyrrverandi höfuðstöðva Íslandsbanka á Kirkjusandi og höfuðstöðva Orkuveitunnar, bygginga sem hafa orðið myglunni að bráð. „Þetta eru byggingar sem eru verulega skaðaðar og þær eru klæddar að utan. Útveggurinn er því ekki vandamálið þar. Ég ætla samt ekki að segja að kenningin sé röng. Í flestum tilfellum kemur raki í gegnum þök og glugga, svo er það leki vegna skemmda í húsum og auðvitað vatnstjón og votrúm.“

Kjartan grípur orðið og bendir á að verkvit skipti líka máli, sérstaklega þegar kemur að útveggnum. „Það hefði ekki gerst fyrir 50 árum að fólk hefði sett upp fataskápa eða bókahillur við útveggi. Það hefðu allir vitað það kæmi slag í vegginn. Í dag segist fólk bara setja skápinn þar sem það vill hafa hann. Þá getur myndast mygla. Blómabeð upp við vegg getur líka leitt til rakamyndunar. Beðið bindur rakann og heldur honum upp við veginn.“

Á meðan ekki liggja fyrir nýjar rannsóknir á myglu í húsnæði á Íslandi geta þeir Kjartan og Ólafur að minnsta kosti bent fólki á lykilatriði til að sporna við, eða draga úr líkum á, rakamyndun og myglu; að lofta vel út, sinna reglubundnu viðhaldi og nota upplýsingar um þekktar lausnir þegar kemur að frágangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert