Fengu nóg af kuldanum og fluttu til Kanarí

Fjölskyldan sagði skilið við kuldann á Íslandi og flutti til …
Fjölskyldan sagði skilið við kuldann á Íslandi og flutti til Kanarí-eyja. ljósmynd/Siggi Palli

Fyrir tveimur árum fengu hjónin Hulda Magnúsdóttir og Sigurður Páll Sigurðsson nóg af kuldanum á Íslandi og fluttu til Kanaríeyja með syni sína þrjá. Þau settu líf sitt á Íslandi á pásu í eitt ár og flugu út á nýjar slóðir, hvert með eina ferðatösku. Nú, tveimur árum síðar, eru þau enn ekki komin heim og eru hæstánægð með lífið í sólinni.

„Flytjum eitthvað!“

„Það var veturinn 2015 sem sonur okkar kom heim úr skólanum eftir langa strætóferð í vondu veðri, henti töskunni sinni á gólfið og sagði: „Ég er kominn með ógeð á þessu veðri. Flytjum eitthvað!“,“ segir Hulda um upphafið á ævintýrinu. Um var að ræða elsta son þeirra hjóna, sem var á þeim tíma í Menntaskólanum í Reykjavík.

Hulda fór að velta orðum sonar síns fyrir sér og íhuga hvort það væri raunhæft fyrir fjölskylduna að flytja til útlanda. Þau mæðginin báru hugmyndina undir Sigurð, eða Sigga Palla eins og hann er kallaður, sem tók strax vel í hana. „Ég var búinn að tala um það í 18 ár að prófa að flytja eitthvað út en síðustu tvö árin fyrir þetta var ég hættur að nefna það þar sem það tók aldrei neinn undir það,“ segir Siggi Palli.

Hann hafði sjálfur búið í Þýskalandi og Grikklandi á sínum yngri árum og hafði lengi dreymt um að búa erlendis með alla fjölskylduna. Hulda hafði alltaf verið hrædd við hugmyndina vegna öryggisins sem hún fann á Íslandi. „Ég var búin að vera á bremsunni því þetta var eitthvað sem ég þekkti ekki,“ segir Hulda. Eitthvað hafi þó breyst á þessu augnabliki, því skyndilega hafi hún orðið spennt fyrir hugmyndinni.

Hjónin eru hæstánægð með ákvörðunina. Hér eru þau á skútu …
Hjónin eru hæstánægð með ákvörðunina. Hér eru þau á skútu sem þau fjárfestu í. ljósmynd/Siggi Palli

Vildu komast í betra veður

Hulda segir það þó hafa verið mjög erfitt að taka endanlega ákvörðun um að yfirgefa Ísland. Sú ákvörðun hafi í raun verið það erfiðasta í ferlinu, en þegar hún var komin í hús hafi hins vegar tekið við að ákveða hvert ætti að flytja. „Okkur langaði að komast í betra veður og bæta við okkur tungumáli. Svo eru strákarnir allir í fótbolta svo við vildum líka fara eitthvað þar sem þeir gætu spilað fótbolta,“ segir Siggi Palli.

Spánn heillaði fjölskylduna strax, og til að byrja með íhuguðu þau að flytja til Suður-Spánar. „En eftir að hafa búið í Grikklandi þegar ég var yngri vissi ég að það yrði skítkalt þar á veturna,“ segir Siggi Palli og bætir við að þar sem betra veðurfar hafi verið efst í huga fjölskyldunnar hafi þau ákveðið að líta enn sunnar. Kanarí-eyjar hafi þá gripið athygli þeirra, sem einn af syðstu punktum Evrópu.

Ákváðu að taka „þetta reddast“ á þetta

Hulda og Siggi Palli höfðu farið í frí til Kanarí-eyja nokkrum árum áður og líkað vel, svo ákvörðun var tekin um að staðurinn yrði fyrir valinu. Við tók ferli við að undirbúa flutninga, setja húsið hér á Íslandi á leigu, selja ýmsa hluti og ganga frá lausum endum. Þá fóru hjónin að lesa sér til um staðinn og kynna sér aðstæður.

Eftir nokkra leit að húsnæði þar sem lítið var um svör ákváðu hjónin að panta „one way ticket“ til eyjunnar fyrir fjölskylduna hinn 28. ágúst 2015 og vona það besta. „Við ákváðum bara að taka þetta íslenska „þetta reddast“ á þetta,“ segir Siggi Palli. Húsið á Íslandi leigðu þau út með öllum húsgögnum og hvert og eitt þeirra tók eina ferðatösku með út. Ekki kom til greina að hætta við.

Strákarnir æfa allir fótbolta á eyjunni.
Strákarnir æfa allir fótbolta á eyjunni. ljósmynd/Siggi Palli

Flugu út án þess að vera komin með íbúð

„Við bókuðum flug út, viku á hóteli og bílaleigubíl í viku og ætluðum bara að klára þetta áður en sú vika liði,“ segir Hulda, en fjölskyldan þekkti engan á svæðinu. „Við stukkum bara í djúpu laugina.“

Eftir tvo daga á hótelinu fundu hjónin húsnæði sem hentaði fjölskyldunni, í sama bæ og þau höfðu heimsótt á Kanarí nokkrum árum áður. Íbúðina fengu þau afhenta fjórum dögum eftir að þau flugu út, eða 1. september 2015.

Ekkert þeirra talaði spænsku við komuna til eyjunnar, og fáir gátu talað við þau á ensku. Leigusalinn reyndist þó vera enskumælandi og hjálpaði hjónunum við að koma sonum sínum inn í skóla á svæðinu. Það reyndist þó ekki eins auðvelt og þau höfðu vonað og við tók mikil skriffinnska.

Í spænskan skóla þrátt fyrir að skilja ekki orð í spænsku

„Spánverjar eru heimsmeistarar í skriffinnsku,“ segir Siggi Palli og bætir við að það hafi tekið alls þrjá mánuði að komast almennilega inn í kerfið. Erfitt hafi verið fyrir þau að skrá sig inn í landið og koma strákunum í skólann, en langerfiðast hafi þó reynst að koma þeim inn í fótboltalið.

„Við eyddum miklum tíma á hverfiskaffihúsinu þessa fyrstu daga,“ segir Hulda og hlær. „En öll þessi vinna var hverrar mínútu virði,“ bætir Siggi Palli við.

Yngri strákarnir tveir byrjuðu nokkrum dögum síðar í spænskum almenningsskóla, án þess að kunna orð í spænsku. Meiri vinna var að koma þeim elsta inn í skóla þar sem skólakerfið er ólíkt kerfinu hér á landi. „Hann var búinn að vera virkur í félagslífinu hér heima og þetta var því mjög erfitt fyrir hann því hann varð svo einangraður,“ segir Hulda.

Yngri strákarnir tveir áttu líka erfitt til að byrja með. „Þeir skildu ekkert og voru félagslega einangraðir og við þurftum að eiga margar samningaviðræður við þá fyrsta hálfa árið,“ bætir hún við.

Fjölskyldan er alsæl með lífið í sólinni.
Fjölskyldan er alsæl með lífið í sólinni. ljósmynd/Siggi Palli

Vakna í sólskini alla daga

Eftir um hálft ár fóru strákarnir þó að ná góðum tökum á spænskunni og komust inn í félagslífið. Sá elsti komst inn í skóla þau áramótin, og tveimur vikum seinna hafði hann eignast spænska kærustu. Skyndilega urðu erfiðleikarnir í byrjun algjörlega þess virði og allir yfir sig ánægðir með búsetuna á Kanarí. Strákarnir tala allir reiprennandi spænsku í dag og eru eins og innfæddir að sögn Sigga Palla.

Þar sem fjölskyldan hafði aðeins ætlað sér að búa á eynni í eitt ár stóð til að flytja aftur heim um haustið. Þau plön breyttust þó þegar leið á árið. „Það var allt byrjað að smella eftir þetta hálfa ár svo okkur fannst ekki alveg passa að fara heim eftir alla þessa vinnu. Okkur leið öllum svo vel, lífið var afslappaðra og við vöknuðum í sólskini alla daga svo við ákváðum að framlengja,“ segir Siggi Palli.

Leigjendurnir á Íslandi voru tilbúnir að framlengja og leigusamningurinn á Kanarí gilti til þriggja ára svo ákvörðunin lá beint við. Hjónin framlengdu því um eitt ár til viðbótar, en hafa ekki tekið ákvörðun um framhaldið. „Við höfðum tök á því að gera þetta svona en erum auðvitað háð leigutekjunum að heiman,“ segir Hulda og bætir við að mikið atvinnuleysi sé á svæðinu og kaupmáttur lítill. Þar sem þeim hefði tekist að hagræða hlutum með ákveðnum hætti hér heima hafi þau haft tækifæri til að vera lengur úti.

Hvetja aðra Íslendinga til að láta drauminn rætast

Hjónin hafa ekki setið auðum höndum, en þau hafa keypt tvær fasteignir og skútu á svæðinu. Ein eignin er á suðurhluta eyjarinnar og þangað fara þau í frí, en hin er á norðvesturhlutanum. Sú síðarnefnda er steinbygging byggð inn í kletta, sem hjónin ætla sér að taka í gegn og gera að mannabústað. Loks hafa fjölskyldumeðlimir og vinir gert sér ferð til eyjarinnar og hefur því einnig verið nóg að gera í gestgjafahlutverkinu.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Hulda og Siggi Palli tekur undir. „Við hvetjum alla Íslendinga sem eiga þennan draum að láta hann rætast.“

Fjölskyldan er nú stödd á Íslandi þar sem þau verja sumrinu, en þau komu einnig til landsins síðasta sumar. Siggi Palli segist aldrei hafa elskað Ísland meira en eftir að hann flutti út. „Við fáum rjómann af Íslandi og sjáum landið í öðru ljósi,“ segir hann. Nú sé tilfinningin gagnvart veðrinu líka allt önnur. „Það er búið að rigna mikið síðan við komum og allir Íslendingar ósáttir við að sumarið sé ekki almennilega komið, en við erum orðin svo vön hitanum að okkur finnst þetta bara fínt,“ segir hann og hlær.

Hjónin keyptu eign inni í kletti á norðvesturhluta eyjunnar til …
Hjónin keyptu eign inni í kletti á norðvesturhluta eyjunnar til að gera upp. Húsið má sjá á myndinni (hvítt og blátt). ljósmynd/Siggi Palli
Feðgarnir njóta þess að sigla saman.
Feðgarnir njóta þess að sigla saman. ljósmynd/Siggi Palli
Fjölskyldan í góðra vina hópi.
Fjölskyldan í góðra vina hópi. ljósmynd/Siggi Palli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert