„Landspítalinn er á hnjánum“

Starfsfólki Landspítalans er þröngur stakkur skorinn.
Starfsfólki Landspítalans er þröngur stakkur skorinn. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Landspítalinn er búinn að vera á hnjánum í mörg ár,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur á lyflækningadeild. Hann segir starfsemina ganga vegna fólksins sem vinnur á spítalanum. 

Refsað fyrir að standa sig í vinnunni

„Ef þú verður veik þá er 80% af því að ná heilsu aftur fólkið sem sinnir þér,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. „Það er, sem betur fer, enn þá fólk hér í vinnu og þetta gengur upp því við erum með úrvals sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, lyfjafræðinga, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, lækna, sérfræðinga og rannsóknardeildir,“ segir Ragnar og bætir við að það breyti því ekki að starfsfólki Landspítalans sé verulega þröngur stakkur skorinn með tilliti til pláss.

„Okkur virðist vera refsað fyrir að standa okkur vel í vinnunni, því á meðan við gerum það virðist fólk líta undan,“ segir Ragnar. Hann segir erfitt fyrir starfsfólk að fá þau skilaboð utan spítalans að það fái ekki meiri stuðning til þess að bregðast við vandamálum.

Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítalans.
Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítalans. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hrópa á úrbætur 

Ragnar segir Íslendingum tamt að hugsa um eina stóra lausn á vandamálum, en slíkt dugi ekki í tilfelli Landspítalans. „Við verðum að vera með margar góðar lausnir, við getum ekki boðið upp á sömu þjónustu fyrir alla. Við erum að troða fólki inn í eitthvert box sem við bjuggum til. Við verðum að búa til kerfi sem gerir sem flestum kleift að fá góða og örrugga þjónustu miðað við það sem þeir þarfnast á þeim tíma,“ segir Ragnar.

Ragnar segir hóp eldra fólks sem þarfnast aukinnar þjónustu vera ört vaxandi og brýnt sé að bregðast við fljótt. „Við verðum að hlusta á öldrunarlæknana okkar sem eru búin að hrópa alveg endalaust á að það vanti úrbætur í öldrunarþjónustu,“ segir Ragnar og bætir við að hann taki heilshugar undir ábendingar þeirra.

Ragnar segir heimahjúkrun sennilega vera þjóðhagslega hagkvæmustu lausn sem við höfum. „Bæði líður fólki vel að vera heima hjá sér og þau vilja vera heima hjá sér. Einnig er sú aðgerð langsamlega ódýrust,“ segir Ragnar og bætir við að þó þurfi auðvitað einnig fleiri hjúkrunarheimili. „Við þurfum mörg úrræði til þess að takast á við fjölbreytt vandamál,“ segir Ragnar að lokum.

Starfsemi Landspítalans gengur vegna starfsfólksins.
Starfsemi Landspítalans gengur vegna starfsfólksins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert