Fjallshlíð hleypur fram á Fjallabaki

Á þessari mynd sést berghlaupið greinilega. Hálf fjallshlíðin skríður þarna …
Á þessari mynd sést berghlaupið greinilega. Hálf fjallshlíðin skríður þarna áfram. Til að átta sig á hlutföllunum þá stendur Gunnhildur Stefánsdóttir á toppi fjallsins, en hún virkar mjög smá í þessu hrikalega landslagi. Mynd/Árni B. Stefánsson

Á fáförnum stað á Fjallabaki á sér nú stað stærðarinnar berghlaup þar sem heil fjallshlíð skríður fram og stórar bergfyllingar falla niður. Árni B. Stefánsson gekk um þessar slóðir um helgina ásamt gönguhóp og segir að magnað hafi verið að fylgjast með kröftum náttúrunnar þarna, en um tveggja rúmmetra bergfylling féll úr klettunum meðan þau voru á staðnum. Tekur hann fram að ferðamenn þurfi þó að sýna mikla varúð á svæðinu og megi til dæmis ekki undir nokkrum kringumstæðum vera fyrir neðan klettana.

Berghlaupið er í vesturhluta Litlahöfða sem liggur suður af Dómadalsleið og austan við Pokahryggi. Segir Árni að hlíðin sjáist illa frá veginum, en sé í um eins kílómetra fjarlægð frá honum. Hann segir að hugi fólk á að skoða berghlaupið sé þó mjög óæskilegt að koma úr þessari átt til að vera ekki undir klettunum, heldur sé vísara að koma frá Dómadalsleið eða taka góðan sveig norðar eða sunnar á Pokahryggjaleiðinni til að fara fyrir klettabeltið.

Að lágmarki 200 þúsund rúmmetrar

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er það stór hluti af vesturhlið fjallsins sem nú gengur fram, en Árni áætlar að brotið sé alla vega 50 metrar á breidd, 40 metra þykkt og 100 metrar á hæð. Það þýðir að stærðin á brotinu er að lágmarki 200 þúsund rúmmetrar, en Árni segir að þetta séu lágmarkstölur og líklega sé það talsvert umfangsmeira.

Mikið grjót hefur hrunið úr fjallinu og líklegt er að …
Mikið grjót hefur hrunið úr fjallinu og líklegt er að mikið muni falla þar til viðbótar. Hættulegt er að vera fyrir neðan bjargið, en það fellur úr því til suðausturs. Mynd/Árni B. Stefánsson

Pokahryggir eru á leiðinni frá Dómadalsleið yfir í Hrafntinnusker og Dalakofa, en þótt nokkur umferð sé um veginn á sumrin og margir ferðamenn gangi í nágrenni þess, t.d. Laugaveginn, er umferð gangandi næst Litlahöfða mjög takmörkuð að sögn Árna. Hann segist ekki hafa séð neinn á svæðinu þegar hópurinn fór um og aðeins sé þar ein forn varða en annars engin merki um gangandi umferð.

Árni líkir þessu berghlaupi við það sem á sér stað í Ketilbjörgum á Skaga, „en þetta er þó mun stærra,“ segir hann.

Hætta í kringum bjargið

Rétt er að ítreka hættuna við að fara fyrir neðan bjargið og Árni segir að einnig geti verið mjög hættulegt að fara of nálægt brún bjargsins, en að þarna sé áhugavert að fylgjast með mótun landsins.

Bergið er að sögn Árna líparít og móberg og er mjög óstöðugt. Ásamt Árna voru á ferð um helgina þau Magnea Jóhannsdóttir, Sölvi Sveinsson og Gunnhildur Stefánsdóttir.

Berghlaup undanfarinn áratug

Undanfarin 10 ár hafa nokkrum sinnum fallið bergskriður hér á landi svo vitað sé um, en þekktast er þegar um 24 milljónir rúmmetra féllu ofan í Öskjuvatn fyrir þremur árum og orsökuðu flóðbylgju og þegar um 5 milljónir tonna af bergi féllu á Morsár­jök­ul í Skafta­fellsþjóðgarði. Þá hefur mikið verið fylgst með. Þá þykir líklegt að 60-70 metra hár klettur falli úr Ketubjörgum á Skaga eftir að sprungur mynduðust í hann. Árið 2012 hrundu svo 16-18 þúsund rúmmetrar úr Dyrhólaey, en þremur árum seinna varð stærra hrun úr Lágey Dyrhólaeyjar.

map.is
map.is map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka