Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður, gekk síðdegis fram á hóp ungra karlmanna að stinga sér til sunds í Reynisfjöru. „Það sem sló mig mest var að þetta var hópur skáta sem var að stunda þessa iðju, að henda sér út í og láta ölduna grípa sig. Við vorum öll frekar hissa á þessu háttalagi,“ segir Vigdís en hún var á ferðalagi með norsku og íslensku vinafólki sínu.
„Heimamenn hafa staðið sig afskaplega vel í því að setja upp varúðarskilti og girða allt af út í eyju. Þeir hafa skiltin meira að segja á kínversku, aðgengið er fallegt og búið að byggja upp veitingastaðinn. Allt til fyrirmyndar,“ segir Vigdís.
Vigdís segir að lokum sorglegt hversu oft er bent á lögreglu, aðra viðbragðsaðila eða heimamenn þegar eitthvað kemur fyrir í fjörunni. „Lögreglan er alltaf að bjarga málunum þegar í óefni er komið, en þegar einhver deyr segir fólk yfirvöld hafa brugðist sem er óþolandi söngur.“