Þó að það þurfi að bera hana í mark

Snapparinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir svaraði áskorun vinkonu sinnar og ætlar …
Snapparinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir svaraði áskorun vinkonu sinnar og ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Minningasjóði blóðlækningadeildar Landspítalans þó að það þurfi að bera hana í mark. mbl.is/ Golli

Snapparinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu samhliða Hildi Karenu vinkonu sinni sem berst við hvítblæði.  

Hildur hafði fyrir löngu spurt vinkonu sína hvort hún vildi taka þátt með henni en í viðtali við mbl.is á föstudaginn skoraði hún loks á hana. „Ofursnapparinn Guðrún Veiga ætlar að fara með mér. Hún á bara eftir að skrá sig. Með því að nefna það hérna í viðtali á mbl.is þá kemst hún eiginlega ekki hjá því.“

Margbrotið loforð verður að veruleika

Guðrún Veiga segir þær oft hafa skipulagt að gera eitthvað eins og þetta áður. „Við höfum skráð okkur í crossfit og ég ætlaði með henni á Hvannadalshnjúk og ég veit ekki hvað og hvað.“ Segist hún alltaf ætla að fara en það endar á því að Hildur fer ein á meðan Guðrún situr eftir heima.

Aðspurð hvað það hafi verið sem fékk hana til þess að taka þátt núna segir Guðrún að Hildur eigi það inni hjá henni. „Ég hef svo oft ætlað með henni,“ segir hún og bætir við að hún vilji einnig styrkja málefnið sem stendur vinkonu hennar svo nærri. „Þetta er fólk sem hefur hugsað mjög vel um hana.“

Auk þess segir hún að það hafi líka hjálpað að Hildur Karen nefndi áskorunina í greininni. „Þá var búið að gera þetta andskoti opinbert,“ segir hún og þá gat hún ekki hætt við.

Guðrún Veiga segir að hún hafi oft ætlað að fara …
Guðrún Veiga segir að hún hafi oft ætlað að fara með Hildi Kareni en alltaf endað á því að hún fer ein á meðan Guðrún situr heima. Hún á það því inni hjá henni að taka þátt í þetta skiptið. Ljósmynd/ Instagram

Hlaupa til styrktar blóðrannsóknardeild Landspítalans

Þegar viðtalið var tekið átti Guðrún enn eftir að skrá sig til leiks í maraþoninu en hefur nú safnað meira en 50 þúsund krónum. Þar með hefur hún náð takmarki sínu í söfnuninni. 

Vinkonurnar ætla að hlaupa til styrktar Minningarsjóði blóðrannsóknardeildar Landspítalans sem sér um að sjúklingar sem greinst hafa með ýmiss konar blóðsjúkdóma, eins og hvítblæði, eitlakrabbamein og mergfrumuæxli, fái greiningu, meðferð, forvörn og endurhæfingu.

Hildur Karen greindist með hvítblæði í nóvember á síðasta ári og hefur eytt miklum tíma með starfsfólkinu á deildinni. Með söfnuninni styrkja þær ferðasjóð starfsfólks fyrir vinnuferð.

Á styrktarsíðu Guðrúnar á Hlaupastyrkur.is  skrifar hún meðal annars: „Að sögn Hildar vinna englar í mannsmynd á 11G og það væri stórkostlegt ef ég gæti lagt mitt af mörkum við að efla starfsemina þar – þó að ég þurfi að andskotans skríða í mark.“

„Nær dauða en lífi“ eftir fyrstu æfingu

Aðspurð hvort hún hafi hafið æfingar játar hún því. „Ég tók fimm kílómetra labb í gær og er nær dauða en lífi í dag,“ segir hún og bætir við að hún sé ekki sérlega bjartsýn á að ná góðum árangri í keppninni. Í allra versta lagi þurfi Hildur að halda á henni í mark.

Guðrún Veiga er í fæðingarorlofi en hún er þekkt fyrir að vera virk á öðrum samfélagsmiðlum auk þess sem hún heldur úti bloggsíðu og hefur einnig gefið út uppskriftabók. Hún komst síðast í fréttir þegar 13 þúsund manns fylgdust með brúðkaupinu hennar á Snapchat. Ekki er við öðru að búast en að þar muni hún einnig sýna myndir úr þátttöku sinni í maraþoninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert