Þyrla bjargaði skáta úr Skaftá

Þyrlan Landhelgisgæslunnar á leið til mannsins.
Þyrlan Landhelgisgæslunnar á leið til mannsins. Ljósmynd/Jón Hermannsson

Tíu manna hópur franskra skáta á aldrinum 18 til 24 ára varð strandaglópar úti í hólma í Skaftá í kvöld. Níu þeirra höfðust við á einum hólma en einn þeirra hafði farið lengra út í jökulána og hafðist við á öðrum hólma, kaldur og hrakinn. Kalla þurfti út þyrlu Landhelgisgæslunnar til að koma þeim manni á land því björgunarsveitirnar sem voru kallaðar út til að bjarga honum treystu sér ekki til að komast til hans á þeim ökutækjum sem þær höfðu til umráða.

Björgunarsveitin náði að fylgja nímenningunum að landi. Verið er að flytja allan hópinn í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri þar sem hlúð verður að þeim. Þar kemur í ljós hvort skátarnir hafast þar við í nótt eða verða fluttir þangað sem búnaður þeirra er.  

Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við Skaftá.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við Skaftá. Ljósmynd/Jón Hermannsson

 

„Algjört glapræði“

„Það var algjört glapræði. Við treystum okkur ekki til að aka til mannsins á öllum þeim tækjabúnaði sem við höfum til umráða og því kölluðum við út þyrluna,“ segir Jón Hermannsson, björgunarsveitarmaður á Hvolsvelli. Mennirnir voru líklega að vaða í Skaftá en Jón segist ekki vita hvað þeim gekk til enda hefur ekki náðst að ræða við allan hópinn ennþá. 

Á meðan TF-Gná var á leið í útkall til að bjarga manninum í Skaftá var henni snúið við til að fara í annað alvarlegra útkall á Suðurlandi. TF-Líf var því kölluð út með nýrri áhöfn. Sú þyrla komst til mannsins um hálfellefu í kvöld og gekk maðurinn sjálfur inn í þyrluna. Hann fékk aðhlynningu í sjúkrabíl á staðnum þar sem ástand hans var metið. 

„Á meðan kölluðum við út allar okkar bjargir austur á Höfn og í Árborg,“ segir Jón þegar ljóst var að einhver bið var eftir þyrlunni. Milli 50 og 60 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum.

Jón, sem hefur verið í björgunarsveit á Suðurlandi í hátt í fjóra áratugi, segist hafa séð margt um ævina en rekur ekki minni til þess að hafa þurft að bjarga fólki úr sjálfheldu í Skaftá með þessum hætti áður. Hann ítrekar að uppátækið sé algjört glapræði og að ekki sé hægt að vaða yfir Skaftá. 

Maðurinn gekk sjálfur inn í þyrluna
Maðurinn gekk sjálfur inn í þyrluna Ljósmynd/Jón Hermannsson
Ljósmynd/Jón Hermannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert