Hópur skáta sem björgunarsveitin var kölluð út vegna í gær ætlaði að vaða yfir Skaftá. Hópurinn var á leið frá Laka yfir á Fjallabak fótgangandi, að sögn lögreglu.
Skátarnir voru 10 saman og höfðu ætlað að leggja leið sína yfir Skaftá. Lögreglan á Suðurlandi segir fólkið ekki hafa áttað sig á aðstæðum. Björgunarsveitin náði að koma 9 úr hópunum á land en kalla þurfti út þyrlu Landhelgisgæslu vegna eins þeirra.
Hópurinn var svo fluttur að Kirkjubæjarklaustri þar sem þau hituðu sig upp eftir hrakfarirnar í jökulánni og gistu á tjaldsvæðinu þar í nótt.
Milli 50 og 60 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum og kom fram í samtali mbl.is við björgunarsveitina á Hvolsvelli að uppátæki skátanna væri algjört glapræði.