„Af myndunum að dæma gæti þetta hlaupið fljótlega og ég væri ekki hissa ef þetta myndi hlaupa fram á næstu dögum eða vikum.“ Þetta segir Jón Kristinn Helgason hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, en í gær birti mbl.is myndir frá miklu berghlaupi frá Litlahöfða á Fjallabaki þar sem hundruð þúsunda rúmmetra af bergi skríða nú fram.
Jón segist vara fólk við að vera á ferð nálægt klettinum og að fyrir neðan hann eigi að vera algjört bannsvæði. Þá sé líka hættulegt að vera á ferð við brúnina sem geti verið mjög laus í sér. „Fólk ætti að halda sig í hæfilegri fjarlægð, það væri skynsamlegast,“ segir hann.
Jón segir að við fyrstu sýn virðist bergið vera krosssprungið og að fleygar séu í berginu. Það geti þýtt að hreyfingin í berginnu sé svokölluð snöruhreyfing, en þá ferðast efnið um ákveðinn miðjupunkt og mætti helst líkja því við massa í kringum kúlulaga kjarna.
Í tilfellum sem þessum getur bergið hafa verið á hægri hreyfingu í einhvern tíma sökum viðnáms í berginu áður en það hleypur loksins fram. Slíkt var upp á teningnum við Öskjuvatn fyrir þremur árum, en svo kom mesta hreyfingin á 1-2 dögum að sögn Jóns. Einnig gæti bergið líka hlaupið fram í nokkrum áföngum.
Á annarri myndinni með fréttinni má sjá skriðutunguna sem þegar hefur myndast við brot úr klettinum og segir Jón að með hlaupi fari grjót líklega mun lengra en tungan er í dag. Annar möguleiki sé reyndar að það muni falla úr klettunum í nokkrum atrennum og þá hrúgist bjarg upp fyrir neðan klettana.