Leiðindaspá um helgina sem fer versnandi

Það má búast við leiðindaveðri um helgina með einhverri vætu …
Það má búast við leiðindaveðri um helgina með einhverri vætu um allt land. Veðrið fer svo versnandi eftir helgi. Hér má sjá kaldan ferðamann. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er frekar leiðinleg spá,“ seg­ir Þorsteinn Jónsson, veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, um veðrið um helgina. Í öllum landshlutum verður einhver væta og sólarlítið en hlýtt. Hlýjast verður á Norðausturlandi á föstudag en svo verður hlýjast fyrir sunnan á laugardag og sunnudag. Veður fer versnandi eftir helgina. 

Á föstudag verður vindur og hvasst við suðvesturströndina, auk þess má búast við rigningu. Hlýjast verður á Norðausturlandi með 18 stiga hita og einnig verður þar úrkomulaust. 

Á laugardaginn verður svalara veður, með suðvestlægri átt og vætu með köflum um allt land. Hlýjast verður fyrir sunnan, með 15 stiga hita. Á sunnudag snýst í skammvinna norðvestanátt og rignir þá fyrir norðan og austan en úrkomulítið verður fyrir sunnan og vestan. Hitastig fer upp í 16 til 17 stig á Suðurlandi.

Spurður hvar besta helgarveðrið verði svarar Þorsteinn að það sé afar breytilegt. „Helgin fer upp og niður. Það er enginn landshluti sem sker sig úr með góðviðri eða illviðri.“ Hann bætir við að veðrið fari töluvert versnandi eftir helgina: „Þá gæti komið stormur og haustlægð eiginlega,“ segir Þorsteinn.  

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert