Mildi er að ekki skyldi fara verr, segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, um tvo skátahópa sem ögruðu íslenskri náttúru í gær. Hóparnir tengjast ekki alþjóðlega skátamótinu sem fer fram á Íslandi seinna í þessum mánuði.
Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs voru búnir að vara hópinn, sem ætlaði fótgangandi yfir Skaftá, við en svo virðist sem sú viðvörun hafi verið virt að vettugi. Hópurinn kemur frá Frakklandi og búið er að hafa samband við Bandalag franskra skáta vegna málsins.
Annar hópur erlendra skáta ákvað svo að stinga sér til sunds í Reynisfjöru þrátt fyrir augljósar viðvaranir við slíkum háskaleik. Hermann segir hvorugan hópinn tengjast stóra alþjóðlega skátamótinu sem haldið verður hér á landi 25. júlí – 2. ágúst.
Að sögn Hermanns undirstrika þessir atburðir mikilvægi þess að brýna fyrir mótsgestum að virða íslenska náttúru og þær hættur sem henni fylgja. Búið er að senda öllum 106 þátttökulöndunum bréf og birta stöðuuppfærslu á Facebook-síðu skátamótsins um málið sem má sjá hér fyrir neðan.