Lýð Ægissyni, 69 ára gömlum manni, sem þurfti að flytjast úr öryggisíbúð yfir í hjúkrunarrými í kjölfar heilabilunar, er gert að greiða 574 þúsund krónur á mánuði til hjúkrunarheimilisins Eirar.
Hann glímir við margvísleg veikindi auk nýtilkominnar heilabilunar, þarf að greiða upp uppsagnarfrest á öryggisíbúð sem hann leigði af Eir. Þá greiðir hann kostnaðarþátttökugjald ríkisins við hjúkrunarrými hans sem Eir innheimtir.
Ekki hefur tekist að finna nýja leigjendur í öryggisíbúðina sem Lýður skilaði af sér í byrjun apríl. Því er maðurinn í þeirri stöðu að greiða meira en það sem hann hefur í tekjur í hverjum mánuði. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir sonur Lýðs erfitt að sætta sig við þann kostnað sem faðir hans standi frammi fyrir í kjölfar veikinda sinna.