Ríkisstofnanir eiga ekki að eyða mörgum milljónum í að fara í kringum auglýsingabann. Þetta segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra en tilefnið er ný auglýsingaherferð ÁTVR, Röðin.
Í fyrstu virðist um auglýsingu fyrir raunveruleikaþátt að ræða, en við nánari athugun kemur í ljós að um er að ræða auglýsingu frá ÁTVR. Auglýsingin kostaði 13 milljónir króna og er ætlað að minna á aldurstakmark til kaupa á áfengi.
„Ég er viss um að allir starfsmenn ÁTVR vita við hvaða aldur fólk má kaupa áfengi,“ bætti Benedikt í umræðum um auglýsinguna á Facebook-síðu ungliðahreyfingar Viðreisnar.
Rafn Steingrímsson, stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna og einn aðstandenda vinbudin.com sem hefur barist fyrir afnámi núverandi ríkiseinokunar á áfengi, vakti máls á þessari auglýsingu ÁTVR á Facebook-síðu sinni í gær.
Þar benti hann á að það sé ekkert meiri háttar vandamál hjá ÁTVR að fólk gleymi skilríkjum heima, þvert á það sem mætti halda miðað við fjölda auglýsinga ríkisverslunarinnar.
„Flestir eru yfirleitt með einhvers konar skilríki á sér og í þeim örfáu tilvikum sem þau gleymast er viðkomandi bara látinn sækja þau. Yfirleitt er ferðin ekki lengri en út í bíl,“ skrifar Rafn en áður fyrr vann hann í versluninni með námi.
Í samtali við Vísi segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, að gerð auglýsingarinnar hafi kostað 13 milljónir króna.