Leikararnir Bergur Þór Ingólfsson og Þröstur Leó Gunnarsson eiga báðir tvær dætur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Samtals fjórar stúlkur sem hefur verið nauðgað, þær beittar ofbeldi og misnotaðar kynferðislega. Þeirri fimmtu var byrluð ólyfjan en henni komið undir læknishendur áður en frekari glæpir áttu sér stað.
Frá þessu segja þeir í pistli í Fréttablaðinu í dag þar sem þeir gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa veitt Robert Downey uppreist æru og lögmannsréttindi á ný. „Af fimm dætrum okkar sem brotið var á (við teljum eiturbyrlun vera brot) fékk ein réttlæti,“ skrifa þeir en segja réttlætinu hafa verið „sullað út í kæruleysislegri en drambsamri embættisfærslu sitjandi forsætisráðherra.“
Bergur Þór er faðir einnar þeirra stúlkna sem Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, braut á og hlaut dóm fyrir árið 2008. Var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Síðan Robert fékk uppreist æru hafa tvær konur til viðbótar stigið fram og greint frá ofbeldi sem þær hafi verið beittar af hálfu Róberts.
Í pistlinum segjast þeir Bergur Þór og Þröstur Leó hafa haldið að tölfræði fjölda brota gegn dætrum þeirra væri ómöguleg. Þá hafi öðrum þeirra ekki enn tekist að koma dætrum sínum yfir tvítugsaldurinn án þess að þær hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi. „Í hvernig samfélagi viljum við búa?“ spyrja þeir.
„Nú getum við ekki lengur áfellst sjálfa okkur fyrir að hafa ekki verndað dætur okkar nógu vel. Við getum ekki annað en reynt að hafa eins hátt og okkur er unnt þar til menningarlegur umsnúningur verður hjá yfirvaldinu og þjóðinni hvað þessi mál varðar. Það verður nefnilega hvorki gert með því að setja límmiða yfir glösin þeirra né skipa þeim að fara í síðari pils.“
Benda þeir á að í fyrra hafi 169 leitað á neyðarmóttöku Landspítalans vegna kynferðisbrota, eða fleiri en nokkurn tímann. Aðeins hafi verið lagðar fram kærur í 68 tilfellum, en ekki hafi komið fram hvað dæmt var í mörgum málum né hve margir aðilar ákváðu að fara ekki á móttökuna. „Útlit er fyrir að þetta vafasama met verði slegið í ár. Ísland er í öðrum flokki hvað mansalsmál varðar. Verslunarmannahelgar fara ekki fram án nauðgana. Þetta er ólíðandi ástand,“ skrifa þeir.
Þá fjalla þeir um það að 16. september 2016 hafi forseti Íslands veitt þeim eina brotamanni sem hlotið hafi dóm fyrir níð á dætrum þeirra uppreist æru að tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Þetta hafi verið forsenda þess að hinn dæmdi hlaut aftur stöðu yfirburða í samfélaginu.
„Ekki vitum við hversu hart fjölmiðlar hafa gengið að Bjarna um að rökstyðja þessa embættisgjörð sína en þau einu svör sem fengist hafa eru eitthvað á þá leið að svona hafi þetta nú bara alltaf verið. Rétt eins og páskar, jól og nauðganir,“ skrifa þeir og halda áfram:
„Ein af fimm dætrum okkar hlaut réttlæti sem var síðan sullað út í kæruleysislegri en drambsamri embættisfærslu sitjandi forsætisráðherra. 20% réttlæti varð skyndilega að núlli. Það samkomulag sem dómurinn hafði gert við þolendurna var rofið. Brotamaðurinn hafði afplánað refsinguna og hefði einfaldlega getað bætt sig sem borgari án þess að krefjast í hroka sínum yfirburðastöðu í þjóðfélaginu og yfirvaldið þurfti ekki að ganga að henni.“
Í niðurlagi pistilsins hvetja þeir Bergur Þór og Þröstur Leó til þess að samlandar sínir hætti að setja ábyrgðina á þolendur ofbeldis. „Krefjumst ábyrgðar af ráðamönnum. Siðmenning er að hugsa fyrst um hag þeirra sem höllum fæti standa,“ skrifa þeir. „Við hvetjum feður og mæður þessa lands til að spyrna við fótum, hafa hátt og krefjast breytinga. Krefjumst réttláts þjóðfélags fyrir börnin okkar.“