Vilja aðstöðu fyrir BUGL á St. Jósefsspítala

Hafnarfjarðarbær á nú 100 prósent hlut í húsnæði St. Jósefsspítala.
Hafnarfjarðarbær á nú 100 prósent hlut í húsnæði St. Jósefsspítala. Mbl.is/Árni Sæberg

Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í gær var lagt fram erindi frá Landspítalanum, frá 3. júlí síðastliðnum, þar sem óskað er eftir því að fá afnot af hluta húsnæði St. Jósefsspítala í um eitt ár fyrir legudeild barna- og unglingageðdeildar, BUGL, á meðan viðgerðir standa yfir á húsnæði legudeildarinnar.

Spítalinn er nú í 100 prósenta eigu Hafnarfjarðarbæjar eftir að bærinn keypti 85 prósenta eignarhlut ríkisins í aðalbyggingunni í júní síðastliðnum. Fyrir kaupin var eignarhluturinn bæjarins 15 prósent.

Bæjarráð ákvað að fela bæjarstjóra að ganga til viðræðna við Landspítalann í samráði við starfshóp um framtíðarstefnu og notkun St. Jósefsspítala. Í samtali við fréttastofu RÚV sagðist Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, gera ráð fyrir að viðræður við Landspítalann hæfust strax eftir helgi.

Við kaup­in á St. Jósefsspítala skuld­batt Hafn­ar­fjarðarbær sig til að reka al­mannaþjón­ustu í hús­inu að lág­marki í 15 ár frá und­ir­rit­un samn­ings. Með almannaþjónstu er átt við starfsemi í félagsþjónustu, heil­brigðisþjón­ustu, menn­ing­ar- eða fræðslu­starf­semi eða ann­arri sam­bæri­legri þjón­ustu sem al­menn­ing­ur sæk­ir í sveit­ar­fé­lag­inu. 

Myglusveppur greindist í húsnæði BUGL við Dalbraut fyrir um tveimur árum og illa gekk að ráða niðurlögum hans. Því þurfti að takmarka starfsemi deildarinnar vegna veikinda starfsfólks sem rekja mátti til myglusveppsins. Nú standa hins vegar yfir viðgerðir á öðru húsnæði en því þar sem myglan greindist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert