Hafa augu á klifri í Norðurfirði

Margir stunda klifur hér á landi, bæði innandyra og úti …
Margir stunda klifur hér á landi, bæði innandyra og úti í náttúrunni. Þá eru nokkur svæði þar sem stundað er sportklifur. Ljósmynd/Magnús Arturo Batista

Íslenski alpaklúbburinn í samstarfi við Klifurhúsið og GG Sport vinna að því að koma upp sportklifursvæði í Norðurfirði á Ströndum.

Þeir leggja af stað vestur á þriðjudaginn og ætla að koma upp eins mörgum klifurleiðum á svæðinu og tími gefst til. „Við fengum 350 augu frá GG Sport og stefnan er að koma þeim öllum upp í sumar,“ segir Jónas G. Sigurðsson klifrari en eins og er eru fimm klifurleiðir í Norðurfirði.

Stefna á rúmlega 160 klifurleiðir

Aðspurður hvort mörg klifursvæði séu hér á landi segir hann að það séu nokkur svæði þar sem stundað er sportklifur. „Stærsta svæðið er Hnappavellir í Öræfasveit og svo eru nokkur minni svæði eins og undir Eyjafjöllum og Valshamar í Hvalfirði.“

Á Hnappavelli eru 160 klifurleiðir en á öðrum svæðum eru leiðirnar á bilinu 10 til 30. Jónas segir að svæðið í Norðurfirði muni vera í svipaðri stærð og Hnappavellir.

Til þess að setja upp klifurleiðirnar þurfa þau fyrst að komast upp á klettana til þess að setja upp akkeri þar sem þeir geta sigið niður á og skoða línuna sem þau hafa áhuga á, hvort þar sé fær leið upp og hvort séu grip. Þá þarf að byrja á því að hreinsa leiðina af gróðri og lausagrjóti áður en að hægt er að bora göt fyrir festingarnar, svokölluð augu, sem eru boltuð í.

Unnið er að því að koma upp sportklifursvæði í Norðurfirði …
Unnið er að því að koma upp sportklifursvæði í Norðurfirði á Ströndum sem mun verða eitt stærsta útiklifursvæði á Íslandi. Ljósmynd/Magnús Arturo Batista


„Þetta eru 30 metra háir veggir og hver leið er með um 15 augum,“ segir Jónas og bætir við að hver og einn klifrari kemur með sínar eigin línur sem hann festir í augun við klifrið.

Stór hópur íslenskra klifrara

Jónas segir að klifur sé vinsæl íþrótt hér á landi bæði innandyra og úti í náttúrunni. „Af þeim sem stunda inniklifrið er stór hluti sem stundar útiklifur á sumrin, örugglega tvö til þrjú hundruð manns.“ Aðspurður hvort hann verði var við að ferðamenn sem koma hingað til lands leiti í klifrið segist hann sérstaklega sjá það á Hnappavöllum. „Ísland er ekkert orðið klifuráfangastaður en það hafa komið hingað hópar bara í þeim tilgangi að klifra.“

Uppbygging á klifursvæðinu á Hnappavöllum byrjaði árið 1991 en Jónas segir að á hverju ári bætist við nýjar og nýjar klifurleiðir. Nokkuð nýlega er búið að uppgötva Vestrahorn við Höfn í Hornafirði þar sem stundað er það sem kallað er grjótglíma (e. boldering) þar sem fólk klifrar upp grjót með ekkert annað en dýnu undir.

„Þetta eru 30 metra háir veggir og hver leið er …
„Þetta eru 30 metra háir veggir og hver leið er með um 15 augum,“ segir Jónas sem er einn þeirra sem stefnir á að setja upp klifurleiðir í Norðurfirði á næstu vikum. Ljósmynd/Magnús Arturo Batista
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert