Vitnaleiðslur eru hafnar í dómsmálinu sem höfðað var vegna andláts Birnu Brjánsdóttur í janúar síðastliðnum. Teknar verða skýrslur af sjö skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq, en Thomas Møller Olsen, sem ákærður er í málinu, var í áhöfn togarans.
Ekki er til staðar löggiltur dómtúlkur mælandi á færeysku og því notast færeysku skipverjarnir á Polar Nanoq við dönsku í stað færeysku, þar sem við hlið þeirra verður í dag íslenskur dönskumælandi dómtúlkur.
Arnbjörn Bjarnason, danskur ríkisborgari fæddur árið 1973, var fyrstur skipverjanna til að bera vitni í dag. Sagðist hann vera bryti um borð í Polar Nanoq, hann hefði hafið störf 2007 og verið kokkur um borð í eitt og hálft ár.
Spurður af Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara sem fer með ákæruvaldið í málinu, um tengsl sín við Thomas sagðist hann aðeins vera vinnufélagi hans og að þess eðlis væru tengsl þeirra. Hann vissi að hann væri með bíl á leigu, hann hefði verið viðstaddur einhverjar nætur.
Spurður hvort Thomas hefði yfirleitt leigt sér bíl á Íslandi sagði Arnbjörn að Thomas hefði oft leigt sér bíl, að því er virtist til að drepa tímann.
Ekki hefði þá borið á neinu einkennilegu í fari Thomasar þegar skipið hélt úr höfn í Hafnarfirði.
Þegar skipinu hefði verið snúið til hafnar sagðist Arnbjörn aðspurður hafa tekið eftir því að Thomas væri uppi í eldhúsinu í vinnufötum, þegar hann hefði átt að vera að vinna. Ástand hans hefði þá versnað sífellt, hann hefði verið taugaóstyrkur og neitað öllum boðum um mat.
Thomas hefði þá spurt Arnbjörn: „Ætli þeir séu komnir til að sækja mig?“ þegar lögreglan hefði komið um borð.
Verjandi Thomasar spurði Arnbjörn hvernig manneskja Thomas væri. Sagðist hann þekkja hann sem mjög indælan náunga, hann væri vingjarnlegur og vinsæll um borð.
Þá spurði verjandi hvort þráðlaust net væri um borð í skipinu. Arnbjörn sagði tenginguna nothæfa en ekki eins góða og í landi.
„Nær hún út fyrir skipið?“ spurði verjandi Thomasar, en Arnbjörn sagðist ekki vita það.