Fá sér kaldan á krana inni í hlýjunni

Samkvæmt Veðurstofu Íslands má búast við vatnavöxtum í ám í …
Samkvæmt Veðurstofu Íslands má búast við vatnavöxtum í ám í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við mælumst til þess að fólk sé ekki að leggja á Fimmvörðuháls eða Laugaveginn í dag. Við mælum frekar með því að fólki taki því bara rólega og slaki á eina nótt í viðbót,“ segir Magnús Kristjánsson, staðarhaldari í Húsadal í Þórsmörk, en hópur fólks lætur nú fara vel um sig í Húsadal þar sem veður fer versnandi. Veðurstofan hefur varað við stormi og miklum vatnavöxtum síðdegis og í kvöld, einkum á Fjallabaki og Þórsmörk. Ferðalangar í Þórsmörk gista bæði í skálum og tjöldum og virðast ekki láta veðrið á sig fá.

Magnús er heldur ekki mikið að stressa sig á veðrinu og segir þetta nú ekki í fyrsta skipti sem rigni í Þórsmörk. „Rigningin í kortunum er reyndar ansi hressileg en rigningin þessa stundina er bara góð íslensk rigning,“ segir hann kíminn. „Það koma góðar og hressilegar dembur á hverju ári, sérstaklega þegar fer að líða á júlí og snemma í ágúst.“

Þrátt fyrir að vera slakur segist Magnús að sjálfsögðu fylgjast vel með ánum. „Það er ómögulegt að segja til um hvernig þær verða. Við erum með stöðugt yfirlit yfir vatnamælingar frá Veðurstofunni og fylgjumst vel með.“

Uppbókað er í skálana og töluverður fjöldi er á tjaldstæðinu, að sögn Magnúsar. „Það eru einhverjir búnir að færa sig betur í skjól og eflaust fleiri sem gera það fyrir kvöldið. Það gæti orðið ansi rakt, en það er fínt inni í hlýjunni okkur og fólk nýtur þess að fá sér kaldan bjór á krana. Við höfum það bara kósí.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert