Stóraukin olíunotkun á Íslandi gæti kallað á enn róttækari aðgerðir í loftslagsmálum en boðað hefur verið.
Þetta er mat Huga Ólafssonar, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu og formanns aðgerðahóps ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Leggur hópurinn mat á leiðir til að draga úr losun koldíoxíðs um 35-40% fyrir 2030, skv. Parísarsamningnum.
Vegna stóraukinnar orkunotkunar eru markmið Íslands orðin enn fjarlægari. Hugi segir hópinn ekki síst horfa til möguleika á að draga úr losun frá bílaumferð. Horft sé til nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar, þar sem þetta sé talin hagkvæmasta leiðin til að efna skuldbindingar stjórnvalda, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Fjármálaráðuneytið er að skoða hvernig beita megi skattkerfinu til að draga úr mengun frá samgöngum.
Skv. gögnum frá aðgerðahópnum losuðu samgöngur 17% af allri losun 2014, án landnotkunar. Hlutur vegasamgangna það ár var yfir 90%.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, kallar eftir aukinni skattheimtu á bifreiðar sem nota mikið eldsneyti. Vegna aukinnar mengunar kunni Ísland að þurfa að kaupa meira af kolefniskvóta. Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, kveðst svartsýnn á að markmið Parísarsamningsins náist.