Á þuklandi læknir að fá réttindi?

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Árni Sæberg

Brynj­ar Ní­els­son, formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar, seg­ir að fund­ur nefnd­ar­inn­ar, þar sem regl­ur um upp­reist æru voru rædd­ar, hafi verið upp­lýs­andi. Fund­ur­inn var hald­inn eft­ir að Svandís Svavars­dótt­ir, þingmaður VG, óskaði eft­ir því.

„Fund­ur­inn var upp­lýs­andi. Ráðuneyt­is­stjóri dóms­málaráðuneyt­is­ins kom og fór yfir það hvernig ferl­in eru, hvernig málsmeðferð hafi verið í ráðuneyt­inu og fékk spurn­ing­ar,“ seg­ir Brynj­ar í sam­tali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Þarf að breyta þessu vél­ræna ferli

Að und­an­förnu hef­ur tals­vert verið fjallað um upp­reist æru eft­ir að lögmaður­inn Robert Dow­ney, áður Ró­bert Árni Hreiðars­son, fékk upp­reist æru og gat því end­ur­heimt lög­manns­rétt­indi sín en hann var árið 2008 dæmd­ur í þriggja ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um.

Ekki al­veg út í blá­inn

Áður hafði Brynj­ar lýst því yfir að hann væri ekki viss um að málið heyri und­ir nefnd­ina og að vaf­ist hafi fyr­ir hon­um að fund­ur­inn færi fram á þess­um árs­tíma. „Ég held að ef það komi frum­varp frá ráðherra þá heyri það und­ir alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd. Auðvitað get­ur fram­kvæmd­in í ráðuneyt­inu eins og hún hef­ur verið í ein­tök­um mál­um heyrt und­ir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd. Þetta er ekki al­veg út í blá­inn,“ seg­ir Brynj­ar.

Hann seg­ir að það þurfi að hafa skýra verk­ferla og koma í veg fyr­ir að ferlið sé mats­kennt. Sum­um þyki skrýtið að eft­ir ákveðinn lang­an tíma og tvo meðmæl­end­ur sé hægt að óska eft­ir upp­reist æru. „Mönn­um þykir rétt að skoða hvort eðli­legt sé að gera grein­ar­mun á tíma og skil­yrðum eft­ir al­var­leika brota.“

All­ir eigi mögu­leika

Sjálf­um þykir Brynj­ari alla jafna að menn eigi alltaf rétt að fá sín borg­ara­legu rétt­indi, að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum. „All­ir eigi mögu­leika á því en það er ekki þar með sagt að all­ir eigi mögu­leika á að fá sín starfs­rétt­indi því þá fer það svo­lítið eft­ir eðli brots. Til að mynda ef lækn­ir hef­ur þuklað á sjúk­ling­um, er þá rétt að hann fái rétt­indi? Eða lögmaður sem hef­ur brotið af sér og er að sýsla í slík­um brot­um,“ seg­ir Brynj­ar og bæt­ir við að þetta þurfi að fara yfir. 

„Ég er ekki með svar við þessu núna því ég held að það sé rétt að farið verði ná­kvæm­lega yfir þetta og það ná­ist sátt um hvenær menn eigi að fá borg­ara­leg rétt­indi aft­ur og hvenær menn eigi að fá star­frétt­indi sem hafa brotið af sér sem hafa slík rétt­indi.“

Fólk setji sig í spor annarra

Brynj­ar seg­ir umræðuna á þá leið að tím­inn sé of stutt­ur, sér­stak­lega er varða lengri brot. „Vanda­málið er að umræðan er á þann veg að sum­ir eiga aldrei að fá upp­reist æru. Ef fólk hugs­ar það bet­ur og set­ur sig í spor annarra þá held ég að það átti sig á því að það er rétt að menn eigi að minnsta kosti mögu­leika á því að fá þetta aft­ur.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert