„Þetta var mjög gagnlegur fundur og varpaði ljósi á ferlið eins og það er núna,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, spurð um fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem haldinn var í gær, en þar voru ræddar reglur um uppreist æru.
„Á fundinum kom fram að þetta ferli er býsna vélrænt, en það virðist vera nóg að uppfylla tiltekna formlega þætti til að fá uppreist æru þar sem engin dæmi eru um að svokölluð meðmæli séu ekki talin fullnægjandi,“ bætir Svandís við, en rætt er við hana um málið í Morgunblaðinu í dag.
Ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins sat fyrir svörum á fundinum og segir Svandís að meðal þess sem spurt var um hafi verið réttur einstaklinga til endurheimtar opinberra réttinda á borð við lögmannsréttindi og vísar þar til máls Roberts Downey. Hann fékk nýverið uppreist æru og gat því endurheimt lögmannsréttindi sín, en hann var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum.
„Skilningur Hæstaréttar byggir á túlkun dómsins á lögmannalögunum um hvað þurfi að uppfylla til að geta fengið að starfa sem lögmaður. Þetta ræddum við líka og hvort eðlilegt væri að nálgast opinber réttindi með þessum hætti. Rétt er þó að taka fram að Lögmannafélagið vill þrengja túlkunina,“ segir Svanhvít.