Hrossin sem gengu laus við Reykjanesbraut snemma í morgun komu alla leið frá hesthúsunum að Andvaravöllum í Garðabæ þar sem hestamannafélagið Sprettur er til húsa. Engin skýring er á því hvernig þau komust út úr girðingunni.
Halla María Þórðardóttir, eigandi reiðskólans Eðalhesta á Andvaravöllum, segir að engin ummerki séu á girðingunni sem skýri það hvernig hrossin komust út. Auk þess sé rafmagn á henni allan hringinn. Einn möguleiki sé að einhver hafi opnað fyrir þeim, enda er enginn lás á girðingunni. Hún segist ekki vilja ásaka neinn enda ómögulegt að vita hvort einhver hafi í raun og veru hleypt hrossunum út úr girðingunni.
Halla segir ómögulegt að vita hvenær hrossin losnuðu eða hversu lengi þau voru á ferðinni þar sem þetta gerðist um miðja nótt, en þau geyma venjulega hrossin úti á nóttinni. Lögreglan í Kópavogi fékk tilkynningu stuttu eftir klukkan fjögur í nótt um að hrossin gengju laus þar sem Reykjanesbraut og Nýbýlavegur mætast, ekki langt frá Álfabakka.