Ólöf Ragnarsdóttir
Starfsemi kísilmálmsmiðju United Silicon í Helguvík er ekki farin af stað aftur eftir að 1.600 gráðu heitur kísilmálmur lak niður á gólf þegar ker sem verið var að tappa á yfirfylltist aðfaranótt mánudags. Sumarleyfi fyrirtækja sem þjónusta verksmiðjuna hafa áhrif á viðgerðir.
Að sögn Kristleifs Andréssonar, yfirmanns öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, var ákveðið að ráðast í endurbætur samhliða viðgerðum. „Það var ákveðið að breyta aðeins hönnun á töppunarbúnaðinum, nota tækifærið til þess að einfalda hann og gera hann skilvirkari,“ segir Kristleifur.
Einnig segir Kristleifur sumarleyfi hafa áhrif á gang mála. „Sumarleyfi hjá fyrirtækjum sem þjónusta okkur tefja þessar endurbætur og viðgerðir verulega,“ segir Kristleifur og bætir við að oft gangi hlutirnir aðeins hægar fyrir sig í júlí en vanalega. „Starfsemin er ekki komin í gang aftur og við ætlum bara að gefa okkur þann tíma sem þarf til þess að endurbæta búnaðinn og gera við,“ segir Kristleifur.