Grynnsla er byrjað að gæta við austurgarð Landeyjahafnar, en Eyjafréttir greindu frá málinu í gær. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fengið afrit af tölvupósti til farþega Herjólfs um að það gætti grynnsla við höfnina, auk þess sem ölduhæð væri mikil.
Setti Elliði sig í samband við Vegagerðina, sem staðfesti að grynningar væru að myndast við austurgarð hafnarinnar. Sagði Vegagerðin við Elliða að allt yrði gert til þess að fjarlægja grynningarnar við höfnina.
Þangað til garðurinn við Landeyjahöfn verður dýpkaður er það mat skipstjóra Herjólfs hverju sinni hvort siglt verður til hafnarinnar. „Það eru skipstjórar Herjólfs, sem taka ákvarðanir um siglingar og við treystum ávallt þeirra mati,“ segir Elliði. Telur hann að náttúran sé þarna að senda samgönguyfirvöldum skýr skilaboð. Það er, að ekki sé nóg að smíða nýtt skip heldur þurfi dýpt hafnarinnar að vera í lagi þegar skipið kemur þangað, segir Elliði að lokum. axel@mbl.is